Íbúðaverð heldur áfram að hækka

Á þriðja ársfjórðungi hækkaði íbúðaverð mest um 6% milli ára …
Á þriðja ársfjórðungi hækkaði íbúðaverð mest um 6% milli ára í Reykjanesbæ. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hækkun íbúðaverðs mældist á bilinu 3-6% milli ára á þriðja ársfjórðungi í stærstu þéttbýliskjörnum landsins. Hækkunin var víða minni en á fyrri fjórðungum ársins, en engu að síður töluverð í ljósi aðstæðna.

Á þriðja ársfjórðungi hækkaði íbúðaverð mest um 6% milli ára í Reykjanesbæ. Hækkunin var 5% á höfuðborgarsvæðinu, líkt og á Akranesi, en á Akureyri og í Árborg mældist minni hækkun, eða um 3%. Þetta kemur fram í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans.

„Þetta eru nokkuð minni hækkanir milli ára en mældust á fyrri fjórðungum ársins, en engu að síður nokkrar í ljósi versnandi stöðu í atvinnu- og efnahagsmála, sér í lagi á þeim landsvæðum sem hafa reitt sig verulega á ferðaþjónustu,“ segir í Hagsjánni.

Frá upphafi árs 2015 hefur íbúðaverð hækkað hraðar utan höfuðborgarsvæðis en á því, þótt munurinn virðist vera að minnka. Miklar sveiflur geta verið milli mælinga, sérstaklega á minni svæðum, og því varasamt að lesa mikið í einstaka mælingar. Vísbendingar eru þó um að munurinn milli landsvæða sé að minnka þegar litið er til þróunarinnar fyrr á árinu þegar hækkanir mældust allt að 16% milli ára.

Aukningin mest á Vesturlandi

„Eftir að Covid-19-faraldurinn hófst hafa mun færri flutt hingað til lands en í venjulegu árferði og er munurinn meiri utan höfuðborgarsvæðisins en á höfuðborgarsvæðinu. Íbúum landsins er þó enn að fjölga því á þriðja ársfjórðungi fluttu samtals 550 fleiri til landsins en frá því. Af þeim sem fluttu til landsins, settust 450 að á höfuðborgarsvæðinu, og 110 utan þess. Þetta er rúmlega 60% minni aukning en á sama tíma í fyrra á höfuðborgarsvæðinu en 74% minni aukning utan þess.“

Frá því í maí hefur aukningin í fjölda undirritaðra kaupsamninga verið mest á Vesturlandi, þar sem allt að 58% fleiri íbúðir hafa selst. Viðskipti jukust einnig talsvert á Suðurnesjum og voru 44% fleiri kaupsamningar undirritaðir þar á þriðja ársfjórðungi í ár en í fyrra.

Á höfuðborgarsvæðinu mældist aukningin 26% milli ára á þriðja ársfjórðungi, 17% á Norðurlandi eystra og 4% á Suðurlandi.

Á nær öllum þéttbýlissvæðum sem voru til skoðunar hefur hlutfall nýbygginga á meðal seldra íbúða aukist. Mestu munar í Reykjanesbæ og á Akranesi þar sem hlutfallið hefur aukist um 11 og 13 prósentustig milli ára. 

Vaxtalækkanir ýta undir áhuga 

Hagdeildin bendir á að íbúðamarkaður virðist nokkuð líflegur um land allt, sérstaklega þegar litið er til fjölda viðskipta. „Það er líklegt að vaxtalækkanir hafi ýtt undir áhuga fólks á að fjárfesta í íbúðarhúsnæði víðar en á höfuðborgarsvæðinu og uppbygging síðustu ára hafi aukið gæði þess húsnæðis sem í boði er,“ segir meðal annars í Hagsjánni en hana er hægt að lesa í heild hér.

mbl.is