Hvetur íbúa til að fara varlega

28 skólabörn eru í sóttkví á Egilsstöðum.
28 skólabörn eru í sóttkví á Egilsstöðum. Eggert Jóhannesson

Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn á Austurlandi og fulltrúi í aðgerðastjórn almannavarnarnefndar á Austurlandi hvetur fólk til að fara varlega í kjölfar þess að smit greindist í fyrsta skipti í landsfjórðungnum síðan í sumar. Hann segir að verið sé að skoða alla möguleika sem um ræðir á því hvernig smitið kom upp. „Við bíðum niðurstöðu úr skimuninni í kvöld og vonumst til þess að verða einhverju nær varðandi uppruna smitsins,“ segir Kristján. 

Gekk vel að koma í veg fyrir smit 

Sá smitaði er bílstjóri skólabíls en 28 börn eru í sóttkví í 9 fullorðnir. „Það er litið til þess hvenær bílstjórinn fór að finna til einkenna og hvenær hann var mögulega smitandi. Út frá þeim tímaramma hafa 28 börn verið sett í sóttkví þar sem þau eru mögulega útsett fyrir smiti,“ segir Kristján en bætir við að um sé að ræða tveggja daga glugga þar sem smit gætu hafa átt sér stað. 

Kristján Ólafur Guðnason.
Kristján Ólafur Guðnason.

Kristján segir spurður að á Austurlandi hafi gengið vel að ná utan um og koma í veg smit í landsfjórðungnum. „Til þessa hefur tekist vel að ná utan um smit. Við vorum heppin að því leyti að þetta dreifðist ekki víða og ekki yfir langan tíma,“ segir Kristján. 

Eins og fram kom í tilkynningu frá lögreglunni á Austurlandi voru sex sendir í sýnatöku vegna málsins en það eru í öllum tilvikum fullorðnir einstaklingar að sögn Kristjáns.  

Hann hvetur íbúa til að fara varlega. „Á meðan þetta gengur yfir þurfa íbúar að fara sérstaklega varlega næstu daga og vikur,“ segir Kristján.  

mbl.is