„Það liggur fyrir að þetta er ekki drepsótt“

Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrum dómsmálaráðherra, er einn talsmanna vefsíðunnar kofid.is sem fór í loftið í dag. Sigríður segir að mörgum þyki skorta heildarmynd þeirra sóttvarnaaðgerða sem gripið hefur verið til frá því að heimsfaraldur kórónuveiru hófst í byrjun árs.

Vefsíðunni er ætlað að vera umræðuvettvangur fyrir þá sem vilja ræða um sóttvarnaaðgerðir, lögmæti þeirra og tilgang.

Sigríður segir að fólkið sem að vefsíðunni stendur komi úr öllum áttum, hagfræðingar, lögfræingar, læknar, fólk úr atvinnulífinu og loks tveir þingmenn, þau Sigríður og Brynjar Níelsson, flokksbróðir hennar í Sjálfstæðisflokknum.

Allir þessir aðilar eiga þó sammerkt að vilja stuðla að aukinni upplýsingagjöf um faraldurinn og áhrif sóttvarnaaðgerða á hina ýmsu þætti samfélagsins. Engum dylst að áhrif sóttvarnaaðgerða hefur lamað efnahagslífið og kippt fótunum undan tugum þúsunda, sér í lagi í ferðaþjónustu. 

„Það liggur fyrir að þetta er ekki drepsótt“

Sigríður segir einmitt að persónulega geri hún einna helst athugasemdir við fyrirkomulag sóttvarnaaðgerða á landamærum Íslands. Þá segir hún einnig að skoða verði sóttvarnaaðgerðir í víðara samhengi. Aðgerðirnar hafi gríðarleg efnahagsleg áhrif og því verði að taka tillit til þess, en ekki bara læknisfræðilegu hliðarinnar, þ.e.a.s. hversu margir smitast.

„Ég hef verið að kalla eftir forsendum aðgerða á landamærum lengi enda finnst mér ekki hafa fengist nægilega skýr mynd af þeim forsendum. Ég tel að það þurfi að varpa frekara ljósi á þær,“ segir Sigríður við mbl.is.

„Það liggur fyrir að þetta er ekki drepsótt. Dánartíðni ungs fólks er mjög lág og menn verða að vega og meta hvort að þessi vágestur sé þess eðlis að réttlætanlegt sé að lama hér efnahagslíf heillar þjóðar. Það að verið sé að gera þetta í löndum í kringum okkur gerir það ekki endilega að réttu nálguninni.“

Hversu langt má ganga?

Sigríður segir að hún búist við því að umræða um heimildir til sóttvarnaaðgerða muni aukast á Alþingi á næstunni. Hún tekur dæmi um slátrun milljóna minka í Danmörku og segir að mögulega hafi ekki legið fyrir heimild til þess að skipa bændum að slátra minkum. Fyrir skemmstu komst í hámæli að kórónuveiran hefði stökkbreyst í dönskum minkum og borist í menn.

Sigríður segir að menn séu að velta því fyrir sér hvort Alþingi eigi ekki að taka ákvarðanir um sóttvarnaráðstafanir í stað þess að þær liggi beinlínis hjá sóttvarnayfirvöldum og ráðherra eins og nú er. 

„Ljóst er að lögspurningin er ekki fráleit þó að menn hafi gert lítið úr henni. Þurfa menn ekki að meta hvurslags vá liggur fyrir. Hversu langt má ganga?“ spyr Sigríður.

mbl.is

Bloggað um fréttina