10 innanlandssmit – 7 á landamærum

Framhaldsskólanemar hafa loksins fengið að mæta í skólann eftir að …
Framhaldsskólanemar hafa loksins fengið að mæta í skólann eftir að hafa verið í fjarkennslu að mestu þetta haustið og eins síðustu önn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alls greindust 10 kórónuveirusmit innanlands í gær. Fyrstu fréttir voru um að innanlandssmitin væru þrjú talsins en þeirri tölu hefur nú verið breytt á covid.is. Sex þeirra sem greindust í gær voru í sóttkví eða 60%.

Átta smit greindust við einkennasýnatöku Íslenskrar erfðagreiningar og Landspítalans en tvö smit við sóttkvíarsýnatöku.

Nú eru alls 232 í einangrun á Íslandi og fækkaði aðeins um einn á milli daga. 318 eru í sóttkví og 629 í skimunarsóttkví. Óbreyttur fjöldi er á sjúkrahúsi vegna Covid-19 eða 52 sjúklingar, þar af þrír á gjörgæslu. 

Alls voru staðfest sjö smit á landamærunum í gær og tvö bíða niðurstöðu mótefnamælingar. Tveir reyndust vera með mótefni við veirunni. Alls voru tekin 770 sýni innanlands en 299 á landamærunum í gær.

Á höfuðborgarsvæðinu hefur smitum fjölgað á milli daga og eru 165 í einangrun þar en 39 á Norðausturlandi. Tólf eru í einangrun á Vesturlandi en í öðrum landshlutum eru smitin mun færri. Eitt virkt smit er á Austurlandi og Vestfjörðum og tvö á Norðurlandi vestra.

Aðeins 34 börn yngri en 18 ára eru nú með Covid-19 en 44 eru með smit á sextugsaldri, 41 á fertugsaldri og 35 á fimmtugsaldri. Í aldurshópnum 18-29 hefur smitum fækkað hratt að undanförnu og eru þau nú aðeins 29 talsins.  

mbl.is