Eldur í gámi við Framheimilið

Rétt fyrir klukkan ellefu í gærkvöldi barst lögreglu tilkynning um eld í Framheimilinu en þegar á vettvang var komið þá reyndist eldurinn vera í ruslagám við húsið og lítil hætta var á vettvangi. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Þar kemur einnig fram að á tíunda tímanum í gærkvöldi hafi tilkynning um líkamsárás í Hafnarfirði borist. Meiðsli þolanda voru þó ekki talin alvarleg. Samt sem áður gistir gerandinn nú í fangageymslu þar til unnt verður að ræða við hann en gerandinn var undir áhrifum þegar hann var handtekinn.

Mjög rólegt var hjá lögreglu eftir miðnætti í nótt en aðeins fjögur verkefni komu til kasta hennar og í öllum tilvikum var um minniháttar aðstoðarbeiðnir að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert