Andlát: Jón Eiríksson Drangeyjarjarl

Jón Eiríksson í Fagranesi nýtti Drangey í áratugi.
Jón Eiríksson í Fagranesi nýtti Drangey í áratugi. mbl.is/Einar Falur

Jón Eiríksson í Fagranesi á Reykjaströnd í Skagafirði, gjarnan nefndur Drangeyjarjarl, lést á hjúkrunardeild Heilbrigðisstofnunar Norðurlands á Sauðárkróki í fyrrinótt, 91 árs að aldri.

Jón var fæddur 8. janúar 1929 á Grófargili í Skagafirði, sonur hjónanna Eiríks Sigmundssonar og Birnu Jónsdóttur. Fjögurra ára gamall flutti hann með foreldrum sínum að Reykjum á Reykjaströnd og fáum árum síðar að Fagranesi. Þar átti hann heima allt upp frá því.

Ungur fór Jón til náms við Héraðsskólann að Laugarvatni en sneri að námi þar loknu aftur á heimaslóðir sínar nyrðra. Saman keyptu Jón og Sigmundur bróðir hans Fagranesjörðina árið 1949, sem Jón eignaðist síðar alla. Þar rak hann lengi blandað bú, allstórt á mælikvarða fyrri tíðar. Hann gegndi ennfremur margvíslegum trúnaðarstörfum í sínu samfélagi, sat í hreppsnefnd Skarðshrepps, héraðsnefnd og mætti þá fleira tiltaka.

Jón var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Sigríður Viggósdóttir (f. 1940) og eignuðust þau fimm börn. Þau eru Eiríkur, Sigurjón, Viggó, Sigmundur og Alda. Seinni kona Jóns var Hólmfríður Heiðbjört Agnarsdóttir (1944-1997). Börn þeirra eru Sigfús Agnar, Björn Sigurður, Ásta Birna, Brynjólfur Þór og Jón Kolbeinn.

Jón byrjaði snemma að sækja í Drangey, seig þar í björg eftir eggjum og veiddi fugl á fleka í marga áratugi. Það var svo árið 1990 sem hann byrjaði með skipulagðar ferðir í Drangey, en þar og við Reyki á Reykjaströnd kom hann upp bryggjustúf og lendingaraðstöðu. Á næstu árum fór hann með þúsundir ferðamanna í eyna og var af því gjarnan í máli fólks nefndur Jón Drangeyjarjarl. Ferðir þessar skópu honum nafn og var hann útnefndur ferðafrömuður ársins 2007 af útgáfufélaginu Heimi.

Hann stundaði jafnframt fuglaveiðar við Drangey og var sigmaður þar í rúm 50 ár. Einn af fáum sem kleif Kerlinguna sem er 52m hár drangur við Drangey. Jón átti auðvelt með að hrífa fólk með nærveru sinni og frásagnarhæfileikar hans voru einstakir, þar með varð öllum þeim sem fóru með honum til Drangeyjar þær ferðir ógleymanlegar. Auk þess var Jón þekktur sem hagyrðingur og átti leikandi létt með vísnagerð.

Jón hefur náð að áorka gífurlega miklu um ævina.  Hann steypti upp bryggju í Drangey, byggði upp Grettislaug og síðar Jarlslaug.  Einnig sá hann um gerð varnargarðs til verndar landminja á Reykjum fyrir sjóágangi. Jón var útsjónarsamur og gerði hvað hann gat til að nýta það sem hann hafði til fullnustu.  Það sýndi sig best í því þegar hann kom upp rafstöð bæði á Fagranesi árið 1958 og á Reykjum árið 2007.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »