Flutningabíll þverar veginn

mbl.is/Gúna

Vegurinn er lokaður um Bröttubrekku þar sem flutningabíll þverar veginn. Unnið er að því að losa bílinn samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.

Krapi er á Mosfellsheiði og hálkublettir á Kjósarskarði en annars eru vegir víðast hvar greiðfærir á suðvesturhorni landsins.

Á Vesturlandi er hálka á fjallvegum og víðast hvar hálkublettir eða greiðfærð á láglendi. Ófært er á Fróðárheiði en unnið að hreinsun. Það er ófært á Kleifaheiði og þungfært á Mikladal og Hálfdán. Annars er víða krapi á Vestfjörðum, hálka eða hálkublettir. Flughált er frá Hólmavík og yfir Þröskulda.

Hringvegurinn er víðast greiðfær í Húnavatnssýslum og Skagafirði en hálka á Öxnadalsheiði og útvegum. Flughált er á Þverárfjalli og frá Hofsósi út á Siglufjörð. 

Hálka á flestum leiðum á Norðausturlandi og flughálka á Hólaheiði, Raufarhafnarvegi, Langanesvegi og Brekknaheiði.

Flughálka er víða á Héraði, á Fjarðarheiði og Vatnsskarði eystra. Þungfært er á Öxi og Mjóafjarðarheiði.

Á Suðurlandi er hálka, hálkublettir eða krapi á nokkrum leiðum í uppsveitum en annars greiðfært.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert