Vill að ráðherra „hugsi út fyrir boxið“

Helga Vala Helgadóttir.
Helga Vala Helgadóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, lýsti yfir áhyggjum af líðan nemenda í framhaldsskólum í miðjum kórónuveirufaraldri og spurði á Alþingi hvort ráðherra ætli að „hugsa út fyrir boxið“ til að mæta þörfum þeirra.

Helga Vala lagði í óundirbúnum fyrirspurnartíma áherslu á mikilvægi staðnáms og bætti við að margra vikna bið væri eftir sálfræðiþjónustu nemenda. Þessi mikilvægi hópur virtist vera gleymdur og vísaði hún í áskorun foreldra nemenda hjá Menntaskólanum við Sund um að staðnám myndi hefjast á nýjan leik. Jafnframt sagði hún brottfall framhaldsskólanema vera helmingi meira en á hinum Norðurlöndunum.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra. mbl.is/Hari

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, sagði mikilvægt að bjóða upp á eins mikið staðnám og mögulegt er. Í upphafi haustmisseris hafi framhaldsskólar byrjað í staðnámi en því miður hafi þurft að herða sóttvarnaráðstafanir.

„Ef ég gæti breytt öllu í dag myndi ég breyta því að þessi veira væri ekki þarna og allt unga fólkið okkar væri að stunda nám,“ sagði Lilja og nefndi að forgangsraðað hafi verið í þágu þeirra sem voru á fyrsta ári í framhaldsskóla varðandi staðnám og einnig nemenda í list- og verknámi. Hún sagði að stoðnám hafi verið aukið, ásamt sálfræðiþjónustu og fjarþjónustu.

Lilja sagði stjórnvöld gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja sem mest staðnám, auk þess að auka sveigjanleika í námsmati. „Á vormisseri bjuggust mjög margir við að það yrði meira brottfall og að einkunnir yrðu lægri en það var ekki raunin,“ svaraði hún.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert