Mikil rýrnun jökla frá 1890

Þessi stærsti jökull landsins þynntist að jafnaði um 45 metra …
Þessi stærsti jökull landsins þynntist að jafnaði um 45 metra á tímabilinu 1890-2019. Á sama tímabiliþynntist Langjökull að jafnaði um 66 metra og Hofsjökull um 56 metra. Myndin var tekin árið 2016. mbl.is/RAX

Íslensku jöklarnir hafa tapað að jafnaði um fjórum milljörðum tonna (Gt) á ári frá því um 1890. Heildartap á sama tíma er 410-670 Gt og hafa jöklarnir tapað nær 16% af rúmmáli sínu. Um helmingur þess tapaðist frá hausti 1994 til hausts 2019. Þá var tapið alls á bilinu 220 til 260 Gt eða nálægt 10 Gt á ári að meðaltali.

Þetta kom fram í grein í Frontiers in Earth Science um jöklabreytingar á Íslandi. Greint var helstu niðurstöðum á vef Háskóla Íslands. „Greinin lýsir breytingum á stærð jökla landsins frá því að þeir voru í hámarki skömmu fyrir aldamótin 1900 og byggist hún á mjög fjölbreyttum rannsóknum sem unnar hafa verið á undanförnum áratugum. Á meðal höfunda greinarinnar eru vísindamenn frá Háskóla Íslands, Veðurstofunni, Landmælingum og Landsvirkjun sem leggja saman krafta sína,“ segir í frétt HÍ. Þar kemur einnig fram að dregnar séu saman niðurstöður fjölbreyttra rannsókna sem ná til um 99% af jökulþekju landsins.

Vatnajökull hefur þynnst að jafnaði um 45 metra á tímabilinu 1890-2019, Langjökull um 66 metra og Hofsjökull um 56 metra. Það samsvarar því að rúmmál Vatnajökuls hafi rýrnað um nálega 12%, Langjökuls um næstum því 29% og Hofsjökuls um nærri 25%.

Afkoma jöklanna er mjög breytileg frá ári til árs en líka á milli lengri tímabila. Mikil rýrnun var á 3., 4. og 5. áratug 20. aldar. Annars var afkoman nærri jafnvægi. Síðustu 25 ár hefur afkoma jöklanna verið verulega neikvæð með stöku undantekningum. Jökulárið 2014-2015 var eina ár þess aldarfjórðungs sem jöklarnir bættu við sig. gudni@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert