Reikninga vantar í bókhald Pírata

Píratar á fundi.
Píratar á fundi.

Skoðunarmenn nýbirts ársreiknings Pírata fyrir 2019 gera athugasemdir við að reikninga vanti í bókhaldið hjá flokknum fyrir 1,3 milljónir króna, þó ekki sé efað að útgjöldin eigi sér stoð.

Þá gera skoðunarmennirnir einnig óvenjulega athugasemd við reksturinn hjá flokknum, að þeim þyki hann hafa verið heldur kostnaðarsamur, ekki síst ef ætlunin sé að eiga einhvern sjóð að sækja í fyrir kosningarnar á komandi ári.

Þá er fundið að því að ársreikningsgerðin hafi dregist úr hömlu, en þessar aðfinnslur eru beinskeyttari fyrir það að kveðið er á um það í lögum Pírata að bókhald flokksins skuli vera öllum opið á vefsíðu hans, uppfært jafnóðum og samþykktir ársreikningar sömuleiðis. Það er gert til samræmis við þá stefnu Pírata að bókhald hins opinbera sé birt og borgarar geti fylgst með því í hvað fjármunum þeirra sé varið.

Það á enn frekar við í ljósi þess að 99,5% tekna Pírata koma úr vösum skattgreiðenda. Þær námu alls 78.446.731 krónu árið 2019, 96,1% kom úr ríkissjóði og 3,4% frá sveitarfélögum. Félagsgjöld flokksmanna námu aðeins 0,5% af tekjum hans. Aðeins 34.600 kr. bárust sem frjáls framlög eða 0,04% teknanna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert