Sýknaður af nauðgun gegn barni

Framburður stúlkunnar þótti skýr fyrir Landsrétti.
Framburður stúlkunnar þótti skýr fyrir Landsrétti. mbl.is/Hanna

Landsréttur hefur staðfest sýknudóm Héraðsdóms Reykjavíkur yfir karlmanni, sem ákærður hafði verið fyrir að nauðga dóttur fyrrverandi sambýliskonu sinnar.

Dómurinn var kveðinn upp í dag.

Maðurinn var ákærður fyrir að hafa, þegar stúlkan var á aldrinum 9-11 ára, ítrekað áreitt hana kynferðislega í krafti yfirburðastöðu sinnar og fyrir að hafa í eitt skipti á tímabilinu, í sumarbústað fjölskyldunnar, áreitt hana með því að snerta kynfæri hennar og brjóst innan klæða, kyssa hana um allan líkamann og sleikja brjóst hennar og kynfæri.

Hefði þurft hvatningu frá spyrli

Landsréttur taldi að framburður mannsins hefði verið stöðugur, og að ekkert hefði komið fram sem rýrði sönnunargildi hans.

Í dómi réttarins var tekið fram að í skýrslu stúlkunnar í Barnahúsi hefði hún þurft mikla hvatningu frá spyrli og að hún hefði oft gefið mjög takmörkuð og stundum óljós svör. Þá hefði nokkuð borið á leiðandi spurningum um atriði, sem fyrri svör hefðu ekki gefið sérstakt tilefni til að fara út í.

Taldi rétturinn óhjákvæmilegt að líta meðal annars til þeirra atriða við mat á sönnunargildi framburðarins.

Framburður stúlkunnar skýr fyrir Landsrétti

Hins vegar nefnir rétturinn að framburður stúlkunnar fyrir Landsrétti hafi aftur á móti verið skýr. Ekkert þótti fram komið sem væri til þess fallið að rýra sönnunargildi hans.

Það breytti þó ekki niðurstöðu héraðsdóms um að framburður stúlkunnar hefði ekki þá stoð í öðrum sönnunargögnum sem nægja myndi til að sakfella manninn, gegn eindreginni neitun hans.

Var áfrýjaður dómur héraðsdóms því staðfestur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert