Rögnvaldur: Engra saknað

Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, segir að eins og staðan sé núna sé engra saknað eftir aurskriðu sem féll á nokkur hús í Seyðisfirði um klukkan þrjú. Allavega tíu hús eru skemmd eftir skriðuna, auk húsa sem höfðu skemmst í öðrum skriðum síðustu nótt.

Þrátt fyrir að einskis sé saknað er unnið að því að skrá alla íbúa til að ná utan um fjöldann og ganga úr skugga um að allir séu heilir á húfi. Rýming bæjarins er í gangi og er fólki bent á að fara á einkabílum eða með rútum frá félagsheimilinu Herðubreið eftir að hafa skráð sig.

Er fólki beint á að fara í fjöldahjálparmiðstöð sem opnuð hefur verið í Egilsstaðaskóla á Egilsstöðum. Þá hefur fjöldi íbúa á Egilsstöðum boðið Seyðfirðingum gistingu.

Rögnvaldur segir að ekki hafi verið hægt að skoða umfang skriðunnar náið í dag og það verði ekki hægt fyrr en hægist um, líklega í fyrsta lagi á morgun. Segir hann að þá sé áætlað að veðrið gangi niður, en mikil rigning hefur verið á Austfjörðum.

Sérsveit ríkislögreglustjóra hefur verið kölluð til aðstoðar á svæðinu að sögn Rögnvaldar. Segir hann að það sérsveitarmenn komi sem venjulegur liðstyrkur við lögreglu á svæðinu, en allir lögreglumenn á svæðinu eru á fullu í vinnu. Segir Rögnvaldur að auðveldast hafi verið að kalla sérsveitina til með stuttum fyrirvara, þar sem allur búnaður hafi verið til staðar.

Rögnvaldur á ekki von á að mikið verði gert í nótt á Seyðisfirði, en að vakt verði á staðnum.

Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum.
Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert