Lögmál framboðs og eftirspurnar hvergi nærri

Höfuðstöðvar Íslandspósts.
Höfuðstöðvar Íslandspósts. mbl.is/​Hari

Vænta má þess að mörgum fyrsta árs hagfræðinemum hafi svelgst á kaffinu í morgun er þeir lásu um fyrirhugaðar verðbreytingar hjá Íslandspósti á heimasíðu Póst- og fjarskiptastofnunar.

Lögmál framboðs og eftirspurnar eru höfð að engu með ákvörðun Íslandspósts um endurskoðun gjaldskrár frá áramótum. Eftirspurn dregst saman og til að mæta því er verð hækkað.

Póstburðargjald vegna bréfa á bilinu 0-2.000 grömm að þyngd hækkar um 15 prósent um áramót. Pósturinn ber fyrir sig launa- og verðlagshækkanir hækkanir en einkum minna magni sends pósts í flokki bréfa að þeirri þyngd.

Magn sendra bréfa hefur dregist saman um ríflega helming á fjórum árum. Árið 2016 voru sendar 24 milljónir bréfa í flokki 0-50 gramma, en í ár verða þau um 11,7 milljónir og áætlanir gera ráð fyrir 13% samdrætti á næsta ári. Svipaða sögu er að segja af bréfum á bilinu 50-2.000 grömm. 

Lögum samkvæmt þarf Pósturinn, sem er opinbert hlutafélag, að leita umsagnar Póst- og fjarskiptastofnunar. 

Póst- og fjarskiptastofnun bað um nánari skýringar á forsendum verðbreytingarinnar, svo sem viðbúnum kjarasamningsbundnum launahækkunum, afkomulíkan og fleira. Sendi Pósturinn svar við því þar sem farið var yfir fyrrnefndar upplýsingar og einnig að gert væri ráð fyrir 7,04% launahækkun á næsta ári á lægsta taxta. 

mbl.is