„Rignir og rignir“ á aðfangadag

Einhvern veginn svona gæti veðrið verið í höfuðborginni á aðfangadag.
Einhvern veginn svona gæti veðrið verið í höfuðborginni á aðfangadag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það lítur þannig út,“ segir Páll Ágúst Þórarinsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, þegar hann er spurður hvort það verði skítaveður um sunnan- og vestanvert landið á aðfangadag.

Spár gera ráð fyrir að það verði hvasst með rigningu, einkum sunnan- og vestanlands, á aðfangadag og hiti verði á bilinu ein til sjö gráður.

„Ef við byrjum á góðu fréttunum þá verður suðlæg átt og skýjað með köflum fyrir norðan. Reyndar gæti orðið svolítið hvasst þar; á Norðurlandi eystra og Austurlandi. Svo á öllu sunnan- og vestanverðu landinu verður rigning,“ segir Páll.

„Þetta verður bara rok og rigning,“ segir Páll og bendir á að vindhraði geti farið yfir 20 metra á sekúndu við Breiðafjörð og Vestfirði. „Það er ekkert æðislega skemmtilegt.

Í höfuðborginni byrjar að rigna snemma á aðfangadagsmorgun og svo „rignir og rignir til klukkan sex á jóladagsmorgun“ segir Páll. Þá komi tveggja tíma úrkomuhlé og í framhaldinu byrji að snjóa.

Spurður hvort jólin verði rauð um allt land segir Páll að snjó taki ekki upp á stöðum þar sem hann er nú, eins og til að mynda fyrir norðan og á Vestfjörðum. 

„Ef maður fer svo í hugtakið rauð jól eða ekki þá er það miðað við veðurmælingar klukkan níu að jóladagsmorgni. Það er alveg möguleiki, ef það kólnar nógu hratt hér í höfuðborginni, að snjó nái að festa strax og þá verði jólin hvít samkvæmt þessari skilgreiningu.“

Hann bendir á að snjó fari alla vega að festa í höfuðborginni þegar líða tekur á jóladag. 

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert