Leggur aftur til sýnatökuskyldu á landamærum

Frá Leifsstöð, eftir að faraldurinn fór á kreik.
Frá Leifsstöð, eftir að faraldurinn fór á kreik. mbl.is/Árni Sæberg

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur aftur lagt til við Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra að allir fari í tvöfalda skimun með nokkurra daga sóttkví á milli við komuna til landsins. Sem stendur getur fólk valið að fara heldur í 14 daga sóttkví. Þórólfur telur þetta mjög mikilvægt í ljósi þess hve margir hafa greinst smitaðir á landamærunum undanfarið, sumir með mjög smitandi afbrigði sem kennt hefur verið við Bretland. 

Þórólfur lagði á sínum tíma til að gera sýnatöku á landamærunum að skyldu. Hann sagði þó að það væru mjög fáir sem velja 14 daga sóttkví. 

„Engu að síður held ég að það sé mjög mikilvægt að við náum nánast öllum,“ sagði Þórólfur á upplýsingafundi almannavarna í dag. 

Tíu smit greindust á landamærunum í gær, óvíst er hvort átta þeirra séu virk. 13 virk smit greindust daginn þar á undan og er mótefnamælingar beðið í þremur tilvikum.

22 tilvik breska afbragðsins hafa greinst hérlendis. Það er mun meira smitandi en fyrri afbrigði. Flest smitanna greindust á landamærunum en þrjú innanlands, öll hjá aðstandendum fólks sem kom frá útlöndum. 

Þórólfur sagði koma til greina að fólk sem greindist með breska afbrigðið sætti sinni einangrun í sóttvarnahúsum.

Þórólfur benti á að eftirlit með þeim sem hafa greinst á landamærum og fara í sóttkví við komuna til landsins hafi verið eflt. Þórólfur telur að nú sé allt gert sem hægt er til að lágmarka áhættuna á því að þetta afbrigði og önnur komi inn í landið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert