Dómarar tókust á í Hæstarétti

Benedikt Bogason og Jón Steinar Gunnlaugsson
Benedikt Bogason og Jón Steinar Gunnlaugsson Samsett mynd

Tekist var á í dómssal í Hæstarétti í dag um meiðyrðamál Benedikts Bogasonar, forseta Hæstaréttar gegn Jóni Steinari Gunnlaugssyni, fyrrverandi hæstaréttardómara. Jón Steinar hafði áður verið sýknaður í Héraðsdómi Reykjaness og í Landsrétti.

Lögmenn tvímenninganna tókust meðal annars á um skilgreiningu og notkun orðsins dómsmorð og hvort um gildisdóm eða fullyrðingu væri að ræða. 

Benedikt krefst þess að fimm ummæli í bókinni „Með lognið í fangið – Um af­glöp Hæsta­rétt­ar eft­ir hrun“ verði dæmd dauð og ómerk. Segir hann að Jón Steinar saki í henni Benedikt og aðra dómara sem mynduðu meirihluta í máli 279/2011 um dómsmorð.

Málið sem um ræðir er mál ákæruvaldsins gegn Baldri Guðlaugssyni fyrrverandi ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins sem dæmdur var í tveggja ára fangelsi fyrir innherjasvik og brot í opinberu starfi. Fyrir liggur að Jón Steinar og Baldur voru og eru vinir og ráku um tíma saman lögmannsstofu. 

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson rak málið fyrir hönd Benedikts og Gestur Jónsson flutti mál Jóns Steinars og var sá síðastnefndi viðstaddur í dómssal í dag en það var Benedikt ekki.

Sagður hafa herjað á dómara

Í málflutningi sínum sagði Vilhjálmur að Jón Steinar hafi herjað á dómara í máli Baldurs á sínum tíma að sýkna vin sinn. Jón Steinar hefur gengist við því að hafa reynt að hafa áhrif á niðurstöðu í máli Baldurs á meðan málaferlum stóð en segir ekkert banna það.  

Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson lögmaður. Mynd úr safni.
Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson lögmaður. Mynd úr safni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vilhjálmur vísaði í gögn málsins þar sem Viðar Már Matthíasson, fyrrverandi varaforseti Hæstaréttar, hafði svarað Kjarnanum fyrir hönd Hæstaréttar og sagt: 

Þessi hegðun dóm­ar­ans fór þvert á ríka venju hér við rétt­inn um að þegar dóm­ari er van­hæfur í máli, þá haldi hann sig til hlés og tjái sig ekki um málið hvað þá freisti þess að lýsa skoð­unum sínum á því hvernig eigi að dæma í því. Það er reyndar einnig svo að dóm­arar leit­ast ekki við að hafa áhrif á úrlausn mála, sem þeir eru ekki sjálfir dóm­arar í.

Þá sagði Vilhjálmur kringumstæðurnar sem sköpuðust í kring um þetta mál vera raunverulega ástæðu fyrir aðför Jóns Steinars að Benedikt. „Hann var að gæta hagsmuna vinar síns og beitti ólögmætum aðferðum til að hafa áhrif á niðurstöðu í máli þessu,“ sagði Vilhjálmur. 

Varðar tiltrú á dómskerfinu

Hann sagði ummæli Jóns Steinars um Benedikt vera staðhæfingar um staðreyndir en engan staðreyndagrundvöll vera fyrir ummælunum. Hann beitti því fyrir sér að táningafrelsið takmarkaðist við réttindi og æru annarra og vísaði í dómafordæmi frá Mannréttindadómstóls Evrópu sem og í siðareglur lögfræðinga og siðareglur dómara. 

„Og hvers vegna er þetta mikilvægt? Af því að þetta varðar tiltrú almennings á  dómskerfinu. Sjálfstæði dómara er einn af horsteinum lýðveldisins.“

Í niðurlagi málflutnings síns sagði Vilhjálmur að Mannréttindadómstóll Evrópu gerir greinamun á ummælum sem féllu innan réttarsals og utan hans sem og gagnrýni sem kæmi innan úr dómskerfinu og utan þess. Þá taldi hann Jón Steinars hafa vel getað gagnrýna dóminn án þess að vega að æru Benedikts. 

„Ég held virðulegi Hæstiréttur að það sé ekki hægt að ásaka embættisdómara um alvarlegri glæp.“

Siðareglur í kjölfar bókarinnar

Gestur Jónsson fór mikinn um störf og þekkingu Jón Steinars Gunnlaugssonar sem fékk lausn dómara þegar Benedikt var skipaður forseti Hæstaréttar Íslands. 

Gestur Jónsson, lögmaður. Mynd úr safni.
Gestur Jónsson, lögmaður. Mynd úr safni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gestur sagði engan núlifandi Íslending hafa tjáð sig meira um dómsmál á opinberum vettvangi en Jón Steinar. Gagnrýni hans sé oft hvöss en ávallt byggð á málefnalegum rökum.

„Hann er einfaldlega lang kunnasti gagnrýnandi íslenska dómkerfisins. Hann tjáir sig með þeim hætti að allir skilja sem vilja, sagði Gestur. 

Hann benti á að siðareglur dómara hafi verið settar eftir að bók Jóns Steinars hafi verið skrifuð og gefin út. Þá fór hann yfir að gagnrýnin á dómnum sem um ræðir hafi verið upp á 23 blaðsíður  sem ekki er hægt að smækka niður í eitt orð og að þar hafi sjónarmið hans verið útskýrð og rökstudd með lögfræðilegum hætti. Hann gerði beinlínis kröfu um að dómarar læsu bókina í heild sinni eða allan kaflans sem fjallar um mál Baldurs. 

Nafn Benedikts ekki nefnt

Hann sagði nafn Benedikts hvergi koma fram í samhengi við orðið dómsmorð, einungis væri getið þess hverjir hefðu myndað meirihluta í „þessum ömurlega dómsmáli“ í lok bókarinnar.

Þá sagði Gestur minnisblaðið sem Jón lagði fram máli sínu til stuðnings við dómara málsins ekki koma þessu dómsmáli efnislega við enda „kemur málinu ekki við hvort að viðkomandi kunni að vera óþekkur.

Tekist var á um skilgreiningu og notkun orðsins dómsmorð og hvort að ummæli Jón Steinars hafi verið gildisdómur eða fullyrðing.

Gestur færði rök fyrir aðildarleysi vegna þess að gagnrýnin hafi snúið að Hæstarétti sem stofnun og Benedikt ekki nafngreindur í því samhengi. Hamrað var á mikilvægi samfélagslegrar umræðu og rými til þess að gagnrýna æðsta dómsvald landsins sem fer með endanlega ákvarðanatöku, sérstaklega í hegningarlagabrotamálum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert