„Ekkert hlustað á okkur“ – íhuga skaðabótamál

Frá Skúla bar, þar sem Björn segir að fólk gæti …
Frá Skúla bar, þar sem Björn segir að fólk gæti setið við borðin sem sjást á myndinni. Ljósmynd/Aðsend

„Það er ekkert hlustað á okkur. Við höfum kallað eftir öðrum fundi vegna þess að jafnræðisregla er brotin,“ segir Björn Árnason, sem rekur Skúla Craft bar við Fógetagarðinn í miðbæ Reykjavíkur, í samtali við mbl.is.

Krár hafa verið lokaðar frá 4. október en lokað var í tvo mánuði í fyrstu bylgju Covid-19. Allt útlit er fyrir að lokað verði til 17. febrúar. Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, kynnti fyrirhugaðar tilslakanir á samkomutakmörkunum fyrr í dag en börum verður áfram gert að hafa lokað.

„Mér fannst illa að okkur vegið þegar krár máttu ekki hafa opið en veitingastaðir, kaffihús og hótelbarir máttu hafa opið allan tímann,“ segir Björn. Hann og Arnar Þór Gíslason, eigandi Lebowski, Enska barsins og Dönsku kráarinnar, funduðu með fulltrúa sóttvarnalæknis og heilbrigðisráðherra fyrir jól þar sem þeir reyndu að benda á að miðað við stöðuna í dag eigi grunnleyfi staða ekki að skipta mála.

Hver er munurinn á kaffihúsi og krá?

„Það er enginn munur á að sitja inni á kaffihúsi eða bar eða krá og við vorum að reyna að fá rök fyrir því hvar munurinn liggur. Einu rökin sem við fengum var að þegar engar aðgerðir eru í gangi og allt opið eins og venjulega þá er meiri sýkingahætta á börum. Við erum sammála því en það er ekki hægt að yfirfæra það yfir á stöðuna í dag,“ segir Björn. Hann bætir við að þeir hafi talað fyrir daufum eyrum:

„Enn er gengið framhjá okkur og við eigum áfram að vera með lokað.“

Björn segir að reglurnar sem gildi á þeim stöðum sem megi hafa opið; grímuskylda áður en sest er og 20 manna hámark frá næstu viku, gangi á Skúla bar.

Gætu fylgt öllum reglum

„Þetta er hægt á okkar stað og það eru nokkrir staðir sem eru opnir sem eru í rauninni barir með kaffihúsaleyfi sem eru með opið,“ segir Björn og heldur áfram:

„Fólk sæti til borðs og væri afgreitt til borðs eins og annars staðar. Það er enginn munur á meðan sóttvarnaaðgerðir eru í gangi,“ segir Björn og finnst skortur á samræmi. Því hafi verið óskað eftir öðrum fundi.

„Við vorum frekar vongóðir eftir fundinn í desember en það er greinilega ekkert hlustað á það sem maður segir,“ segir Björn sem kveðst ráðþrota með hvað hann eigi að taka til bragðs.

Aðspurður segir Björn næsta skref vera að krefjast skaðabóta ef ekkert breytist. „Þessir lokunarstyrkir rétt duga fyrir föstum kostnaði. Það er búið að vera lokað í meira en hálft ár og það verður áfram.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert