Smit á hjartadeild Landspítalans

Landspítali háskólasjúkrahús við Hringbraut.
Landspítali háskólasjúkrahús við Hringbraut. mbl.is/Ómar Óskarsson

Lokað hefur verið fyrir innlagnir á hjartadeild Landspítalans vegna kórónuveirusmits sem greindist hjá sjúklingi á deildinni.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landspítalanum, þar sem segir að smitið hafi uppgötvast við hefðbundna skimun sjúklinga deildarinnar vegna kórónuveirufaraldursins. Ekki liggi fyrir hvernig umræddur sjúklingur hafi smitast, en þó liggi fyrir að hann hafi smitast á meðan hann var inniliggjandi á hjartadeildinni. Hann sé nú á heimili sínu.

Bráðum innlögnum hjartasjúklinga verður sinnt á öðrum legudeildum á meðan lokun hjartadeildarinnar varir og hefur öllum valkvæðum aðgerðum og göngudeildarheimsóknum á morgun, miðvikudaginn 13. janúar, verið frestað.

Á annað hundrað manns skimaðir

Farsóttarnefnd Landspítala kom þegar í stað saman ásamt stjórnendum hjartadeildar, þar sem ákveðið var að grípa til eftirfarandi ráðstafana: að skima alla sjúklinga (32 talsins), skima allt starfsfólk deildarinnar (á annað hundrað manns) og hafa samband við aðstandendur.

Aðgerðir þessar standa yfir og verður áfram haldið á morgun. Sóttvarnalæknir hefur verið upplýstur um málið og nú er unnið að smitrakningu innanhúss og meðal þeirra sem deildinni tengjast eftir atvikum.

„Alltaf er hætta á því í heimsfaraldri eins og vegna Covid-19, að smit komi upp á einstökum deildum með þessum hætti, jafnvel þótt ýtrustu sóttvarna og fyllstu varúðar og öryggis sjúklinga sé gætt. Margir tugir og jafnvel nokkur hundruð manns starfa á flestum stærri deildum Landspítala og þetta fólk er allt virkt upp að vissu marki í samfélaginu. Deildirnar þarf einnig að þjónusta af stórum hópi fólks í stoðdeildum spítalans. Sömuleiðis eru heimsóknir aðstandenda leyfðar upp að vissu marki,“ segir í tilkynningu Landspítalans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert