5,5 milljarðar á 10 árum

Ferðamenn á útsýnispalli við Goðafoss.
Ferðamenn á útsýnispalli við Goðafoss. mbl.is/Golli

Frá stofnun framkvæmdasjóðs ferðamanna árið 2011 hefur 5,5 milljörðum króna verið úthlutað til stórra og smárra verkefna um land allt.

Verkefnin snúa að náttúruvernd og öryggi, uppbyggingu ferðamannastaða og hönnunar og skipulags.

Í nýrri skýrslu sem Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, lét taka saman kemur fram að 3,6 milljörðum króna hafi verið varið til uppbyggingar ferðamannastaða, 1,6 milljörðum til verkefna í þágu náttúruverndar og öryggis og rúmum 300 milljónum til hönnunar og skipulags.

„Fyrir tilstilli framkvæmdasjóðsins hefur orðið sannkölluð bylting í aðstöðu og innviðum á fjölmörgum áfangastöðum, eins og allir sem ferðast um landið hafa orðið varir við. Sjóðurinn hefur tekið jákvæðum breytingum sem endurspegla breytta nálgun hins opinbera í stuðningi við innviðauppbyggingu á ferðamannastöðum. Ég tel ljóst að hann hafi enn miklu hlutverki að gegna við að stuðla að því að íslensk ferðaþjónusta sé í fremstu röð hvað varðar upplifun gesta, uppbyggingu nýrra áfangastaða, náttúruvernd og sjálfbæra nýtingu þeirra miklu verðmæta sem felast í náttúru Íslands,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, í tilkynningu.

Skýrslan nær yfir tímabilið 2011 til síðustu áramóta. Í henni er farið yfir reynslu af starfi sjóðsins í takt við þróun í regluverki og breyttar aðstæður í starfsumhverfi íslenskrar ferðaþjónustu. Þrátt fyrir auknar fjárveitingar til uppbyggingar ferðamannastaða síðustu ár er enn brýn þörf fyrir meiri uppbyggingu víða um land auk þess sem uppbygging og viðhald á fjölsóttum ferðamannastöðum er og verður viðvarandi verkefni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert