Fara ekki í skimun þrátt fyrir dvöl erlendis

Frá flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Frá flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Flugfreyjur og flugmenn þurfa ekki að fara í sýnatöku á landamærum eftir dvöl erlendis vegna vinnu. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir aðspurður að engin sérstök áhætta sé í því þó alltaf séu einhverjar líkur á því að smit komist inn í landið í gegnum landamæri. 

Flestir sem til landsins koma þurfa að fara í tvöfalda sýnatöku með fimm daga sóttkví á milli, flugáhafnir eru á meðal þeirra sem undanþegnar eru reglum um skimanir og sóttkví. Þó dvelja áhafnarmeðlimir stundum í stuttan tíma erlendis vegna vinnu sinnar. 

Spurður hvort flugmenn og flugfreyjur þurfi að sæta sóttkví eða skimun við komuna til landsins, sérstaklega eftir dvöl erlendis vegna vinnu sagði Þórólfur á upplýsingafundi í dag:

„Það hefur verið túlkað sem vinnusóttkví og það gilda ákveðnar reglur um áhafnir flugvéla. Þetta hefur verið allan tímann, alveg frá síðastliðnum vetri þegar faraldurinn byrjaði.“

Alltaf áhætta þegar fólk kemur til landsins

Óttist þið ekki að fá smit inn í landið með þessum hætti og hefur það gerst? 

„Það hefur ekki gerst svo ég viti til og það virðist ekki vera nein sérstök áhætta í því eins og staðan er núna. Auðvitað er alltaf áhætta ef einhver er að koma inn og við höfum bent á það ítrekað. Með þessum aðgerðum sem við höfum verið með höfum við getað lágmarkað það. Ég held að raðgreiningin, bæði á landamærum og innanlandssmitum, sýni það að aðgerðirnar, sérstaklega þessi tvöfalda skimun hefur verið mjög árangursrík og ég vona að hún verði það áfram.“

Samkvæmt upplýsingum frá Icelandair er viðdvöl áhafnar erlendis almennt stutt og fá áhafnir leiðbeiningar um sérstakar varúðarráðstafanir sem þeim ber að fylgja. Í þeim tilvikum sem áhafnameðlimir ferðast á eigin vegum er áhafnarmeðlimum gert að fara í tvöfalda sýnatöku með sóttkví á milli.

Nokkur skilyrði

Hér má sjá umrædda undanþágu. Þar kemur fram nokkur skilyrði séu sett fyrir undanþágunni fyrir flugáhafnir og flugrekstraraðila með rekstrarleyfi hérlendis auk áhafnarmeðlima erlendra rekstraraðila sem búsettir eru hér. Skilyrðin eru eftirfarandi: 

  1. Áhafnir sem eiga sína aðalbækistöð eða eru búsettar hér á landi hafi ferðast eingöngu í atvinnuskyni og hafi farið í einu og öllu eftir leiðbeiningum vinnuveitanda eða sóttvarnalæknis sem líta má á sem varnarsóttkví.
  2. Ekki sé blandað saman í sama flug áhafnarmeðlimum sem eru þátttakendur í íslensku samfélagi við áhafnarmeðlimi sem eiga sína aðalbækistöð erlendis. (Sértilvik: ef sömu einstaklingar starfa saman í áhöfn heila vaktatörn án þess að nýir einstaklingar bætist í hópinn innan 14 daga áður en vaktatörn lýkur, gildir undanþágan þrátt fyrir mismunandi bakgrunnsáhættu við upphaf vaktatarnar ef engin COVID-19 veikindi koma upp meðal áhafnarmeðlima meðan á vaktatörn stendur.
  3. Áhafnarmeðlimir sem útsettir eru fyrir smiti þrátt fyrir varúðarráðstafanir sem vinnuveitandi mælir með, hvort sem það er innan fjölskyldu, vinahóps eða í starfsumhverfi verða að virða að fullu sóttkvíartilmæli sóttvarnalæknis og falla ekki lengur undir þessi undanþáguskilyrði.
  4. Starfsmenn í þessari stöðu fylgist vel með heilsunni og sérstaklega eftirfarandi: a. Kvef eða hálssærindi, skyndilegar breytingar á bragð- og lyktarskyni b. Hósti eða mæði c. Þreyta, vöðva- eða beinverkir, höfuðverkur d. Hiti yfir 38°C
mbl.is