Sigríður Þrúður ráðin mannauðsstjóri Kópavogsbæjar

Sigríður Þrúður mun stýra nýrri mannauðsdeild Kópavogsbæjar.
Sigríður Þrúður mun stýra nýrri mannauðsdeild Kópavogsbæjar. mbl.is/Hjörtur

Sigríður Þrúður Stefánsdóttir hefur verið ráðin mannauðsstjóri Kópavogsbæjar. Hún var valin úr hópi 60 umsækjenda og mun veita nýrri mannauðsdeild bæjarins forystu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kópavogsbæ.

Sigríður Þrúður hefur víðtæka stjórnunar- og sérfræðireynslu en hún kemur til starfa hjá Kópavogsbæ frá Reykjavíkurborg þar sem hún starfar sem skrifstofustjóri á Mannauðs- og starfsumhverfissviði. Hún hefur einnig starfað sem mannauðsstjóri hjá Marel og sem sérfræðingur og ráðgjafi á sviði mannauðsmála fyrir fjölda fyrirtækja og stofnana.

Þá hefur hún að auki starfað sem skólastjórnandi, verkefnastjóri, framhaldsskólakennari og leiðbeinandi á háskólastigi á sviði mannauðsstjórnunar, fræðslu- og starfsþróunar, stefnumótunar, markaðsmála og stjórnendaþjálfunar. Hún er einnig stjórnendaþjálfari hjá Franklin Covey stjórnendaráðgjöf.

Sigríður er með meistarapróf á sviði mannauðsstjórnunar, stjórnunar og stefnumótunar en lauk BA Honours námi í ferðamálafræði. Hún er með kennsluréttindi og diplóma í markþjálfun.

Sigríður Þrúður Stefánsdóttir.
Sigríður Þrúður Stefánsdóttir. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is