Starfsemi Vegagerðarinnar verður tekin út

Fjölmargir þættir í starfsemi Vegagerðarinnar verða teknir út af ríkisendurskoðanda …
Fjölmargir þættir í starfsemi Vegagerðarinnar verða teknir út af ríkisendurskoðanda að beiðni Alþingis. Haraldur Jónasson/Hari

Alþingi samþykkti í dag að fela ríkisendurskoðanda að gera úttekt á starfsemi Vegagerðarinnar í samræmi við skýrslubeiðni nokkurra þingmanna.

Sara Elísa Þórðardóttir, þingmaður Pírata, er fyrsti flutningsmaður skýrslubeiðninnar sem samþykkt var með öllum greiddum atkvæðum. 

Ríkisendurskoðandi mun því ráðast í fjárhags- og stjórnsýsluúttekt á Vegagerðinni og skila skýrslu að þeirri vinnu lokinni.

Meðal annars er farið fram á að eftirfarandi þættir verði skoðaðir: 

  • hvort framkvæmdir séu í samræmi við fjárheimildir,
  • framkvæmd útboða með tilliti til laga um opinber innkaup, útboðsstefnu ríkisins og hvernig jafnræðis, meðalhófs og gagnsæis sé gætt, og hvort kröfur útboðslýsinga séu nægilega skýrar,
  • hvaða gæðakröfur eru gerðar til að tryggja öryggi vegfarenda við vegaframkvæmdir sem Vegagerðin býður út.

Sara Elísa segir að úttekt sem þessi hafi sjaldan verið mikilvægari í kjölfar tveggja atvika þar sem nýlega malbikaðir vegir virðist ekki hafa staðist gæðakröfur. Hún minnir á að Alþingi sinnir einnig mikilvægu eftirlitshlutverki, í samtali við mbl.is.

mbl.is