Búðarhnupl og annarlegt ástand

mbl.is/Arnþór Birkisson

Ökumaður sem lét sig hverfa eftir að hafa valdið umferðaróhappi í Árbænum í gærkvöldi er grunaður um ölvun við akstur. Hann var handtekinn skömmu síðar og hélt því þá fram að hafa neytt áfengis eftir að akstri lauk. Ökumaðurinn var færður í sýnatöku og vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn málsins.

Síðdegis í gær var tilkynnt til lögreglu um hnupl úr verslun í miðborginni (hverfi 101). Lögreglan handtók manninn, sem er á reynslulausn og má ekki neyta fíkniefna. Hann er vistaður sökum ástands í fangageymslu lögreglu.

Á áttunda tímanum í gærkvöldi voru tvær konur staðnar að þjófnaði á matvöru í verslun í Austurbænum (hverfi 105). Þær voru færðar á lögreglustöð þar sem skýrsla var tekin af þeim og látnar lausar að því loknu.

Tveir voru stöðvaðir fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna í nótt og hefur annar þeirra ítrekað verið stöðvaður fyrir akstur bifreiða sviptur ökuréttindum. Hinn var ekki með ökuskírteini í fórum sínum. 

Á fjórða tímanum í nótt var tilkynnt til lögreglu um eignaspjöll í verslun í miðborginni (hverfi 101). Þar hafði ógnandi viðskiptavinur hent vörum um öll gólf verslunarinnar. Maðurinn var farinn af vettvangi er lögregla kom en fannst skömmu síðar. Maðurinn var í annarlegu ástandi og vildi ekkert tjá sig um það sem gerðist. Upplýsingar um manninn liggja fyrir ef verslunin kærir eignaspjöllin.

mbl.is