Fólki í sóttkví fjölgar um 66%

„Við erum bara með reglugerð sem er í gangi. Það …
„Við erum bara með reglugerð sem er í gangi. Það eru engin sérstök áform uppi um að breyta henni eitthvað eins og staðan er núna,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Einstaklingum í sóttkví fjölgaði úr 149 í 247 frá mánudegi til þriðjudags eða um 66% þrátt fyrir að einungis hafi tvö kórónuveirusmit greinst innanlands í gær. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að líklega hafi þessir 98 einstaklingar farið í sóttkví vegna smitanna tveggja. Hann telur ekki tímabært að slaka á aðgerðum innanlands þrátt fyrir fá smit síðustu daga.

Þórólfur segir misjafnt hversu margir fara í sóttkví vegna hvers og eins smits. „Þetta fer eftir því hvað viðkomandi sem greinist hefur farið víða og útsett marga. Það er bara breytilegt eftir einstaklingum, hvar þeir eru, hvar þeir vinna og svo framvegis.“

Eru þessir 98 sem bættust við í sóttkví vegna smitanna tveggja sem komu upp í gær?

„Já, það held ég að hljóti að vera. Einn einstaklingur í skóla getur til dæmis útsett mjög marga svo margir þurfa að fara í sóttkví í tengslum við hann. Þetta er mjög breytilegt.“

Engin áform uppi um tilslakanir

Tvö smit greindust í gær og tvö smit daginn áður. Fjögur smit greindust á mánudag en einungis eitt um helgina. Spurður hvenær sé útlit fyrir að tilslakanir á aðgerðum innanlands verði skoðaðar segir Þórólfur:

„Við erum bara með reglugerð sem er í gangi. Það eru engin sérstök áform uppi um að breyta henni eitthvað eins og staðan er núna.“

Reglugerðin sem nú er í gildi kveður á um 20 manna samkomubann, takmarkanir á ýmissi starfsemi og fleira. Hún tók gildi 13. janúar síðastliðinn og gildir til 17. febrúar næstkomandi.  

 „Það er alltaf verið að spá í það hvort það eigi að fara í [tilslakanir] fyrr eða ekki. Við erum að reyna að vinna tíma með því að ná bólusetningunum og halda þessu ástandi góðu þangað til við náum að bólusetja marga. Auðvitað tekur það einhvern tíma en þetta helst í hendur,“ segir Þórólfur og bætir við:

„Við þurfum líka að sjá hvaða áhrif síðustu tilslakanir  hafa. Það er alltaf talað um að það taki eina til tvær vikur að sjá árangurinn af þeirri breytingu.“

Reglugerðin bjóði upp á fyrirsjáanleika

Vika er síðan tilslakanirnar tóku gildi. Spurður hvort þær aðgerðir sem nú eru í samfélaginu hafi borið árangur, þegar litið er til síðastliðinnar viku segir Þórólfur:

„Já, ég held það og það er  ánægjulegt út af fyrir sig. En það er fljótt að breytast og reglugerðin er bara í gildi.“

Þá segir Þórólfur að núverandi reglugerð bjóði upp á fyrirsjáanleika þar sem hún gildi lengur.

mbl.is

Bloggað um fréttina