Birta myndskeið um ágræðsluna

Ágræðsla tveggja handleggja á Guðmund Felix Grétarsson þykir mikið læknisfræðilegt afrek, enda ákaflega flókin. Til þess að skýra hana betur hefur Edouard Herriot-spítalinn í Lyon sent frá sér meðfylgjandi myndskeið. 

Guðmundur Felix varð fyrir slysi við háspennulínu fyrir 22 árum og missti við það báða handleggi. Fjórum árum síðar varð hann fyrir lifrarbilun og fékk þá ígrædda lifur í Danmörku. Vonir um að hann gæti fengið ágrædda útlimi kviknuðu fyrir nokkrum árum, en hann hefur beðið ágræðslunnar undanfarin fimm ár.

Í Lyon er mikil þekking og reynsla við flóknar líffæraígræðslur af þessu tagi, en þetta er þó í fyrsta sinn, sem aðgerð af þessu tagi hefur verið gerð í heiminum.

Eftirmálin lofað góðu

Þó enn sé auðvitað ekki ljóst hversu vel tekst til þótti aðgerðin sjálf ganga eins vel og vonast mátti til og enn sem komið er hafa eftirmálin lofað góðu. Tvö skurðdeildarteymi með tugum lækna framkvæmdu margþætta aðgerðina, og á sitt hvorum staðnum, á líffæragjafanum og Guðmundi Felix.

Miklu skipti að tímasetningar væru hárnákvæmar til þess að blóðflæði í handleggina rofnaði í sem allra skemmstan tíma, en að aðgerðunum komu m.a. beinaskurðlæknar, æðaskurðlæknar, taugaskurðlæknar og ótal sérfræðingar aðrir frá tíu sjúkrastofnunum í Lyon og nágrenni, bæði einkareknum og opinberum.

Langt undir hámarkinu

Ágræðslutíminn þótti skammur, klukkustund og 52 mínútur fyrir hægri handlegg og tveir tímar og 20 mínútur fyrir þann vinstri, sem er langt undir því sex tíma hámarki, sem jafnan er miðað við í ágræðslum.

Björninn er þó ekki unninn enn, því til þess að ágræðslur af þessu tagi gangi eftir þarf að bæla ónæmiskerfi líkamans með lyfjagjöf til þess að koma í veg fyrir að líkaminn hafni hinum ágræddu limum, en um leið að koma í veg fyrir sýkingar með öllum ráðum. Gert er ráð fyrir að sú meðferð standi yfir næsta árið.

Of snemmt að fagna sigri

Þá er eftir að reyna að koma nýju handleggjunum í gagnið, en Guðmundar Felix bíður löng sjúkraþjálfun. Raunar biðu læknarnir ekki boðannna, því aðens 12 tímum eftir aðgerðina hófst óbein sjúkraþjálfun með því að hreyfa limi og liði. Virk hreyfing helstu vöðva verður reynd í næstu viku.

Í fréttatilkynningu frá sjúkrahúsinu er ítrekað að of snemmt sé að fagna sigri. Enn hafi ekkert áunnist nema að fyrstu stig ágræðslunnar hafi gengið áfallalaust fyrir sig og engin merki um höfnun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert