Björgunarsveitir kallaðar út vegna snjóflóðs

Frá Öxnadalsheiði. Mynd úr safni.
Frá Öxnadalsheiði. Mynd úr safni. Ljósmynd/Davíð Örvar Hansson

Um 40 björgunarsveitarmenn voru kallaðir út í kvöld vegna snjóflóðs sem féll á veginn um Öxnadalsheiði. Fólk sat í bílum sínum sem voru fastir og áttu erfitt með að komast leiðar sinnar vegna færðarinnar en björgunarsveitir luku störfum um klukkan hálftólf í kvöld.

Þetta segir Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, í samtali við mbl.is.

Björgunarsveitir hafa staðið í ströngu síðastliðinn sólarhring vegna færðarinnar á Norðurlandi og hefur lögreglan lýst yfir óvissustigi á Norðurlandi og hættustigi á Siglufirði, en þar er enn rýming í gildi á tilteknu svæði.

Sömuleiðis hefur óvissustigi verið lýst yfir á norðanverðum Vestfjörðum, vegna snjóflóðahættu.

mbl.is