Telja varnargarða geta brugðist ef stór flóð falla

Stærsta snjóflóðið á Tröllaskaga féll á skíðasvæði.
Stærsta snjóflóðið á Tröllaskaga féll á skíðasvæði. Ljósmynd/Sigurður Þór Helgason

Veðurstofan telur að ef mjög stór flóð myndu falla úr Stóra-Bola við Siglufjörð sé hætt við því að varnargarðar fyrir ofan byggð muni ekki halda. Af þeim ástæðum er ekki talin ástæða til að aflétta rýmingu næstu daga. Búist er við snjókomu fram á sunnudag. 

Veðurstofan fylgist með málum á Tröllaskaga en þar hafa fimm snjóflóð fallið utan byggðar síðustu daga. Lítið bætti í snjó í fjöllunum fyrir ofan Siglufjörð í nótt, en búist er við því að ástandið muni versna eftir hádegi í dag og fram á sunnudag vegna snjókomuspár.

Í sambandi við sveitabæi 

Auk rýmingar á Siglufirði var í gær ákveðið að hleypa engum að orlofshúsinu Veisuseli í Fnjóskadal. Ekki er búið í húsinu. Harpa Grímsdóttir ofanflóðasérfræðingur segir að starfsfólk Veðurstofunnar hafi verið í sambandi við sveitabæi sem eru undir fjöllum þar sem hætta er talin á snjóflóðum. Ekki hefur verið talin ástæða til rýmingar á þeim enn. Auk þess sem áhersla er lögð á að fylgjast með fjöllum fyrir ofan byggð er sérstaklega fylgst með fjöllum fyrir ofan við Siglufjarðarveg og Ólafsfjarðarveg. „Eins og staðan er núna höfum við ekki áhyggjur af fleiri stöðum,“ segir Harpa.

Siglfirðingar mega sæta rýmingu í ljósi þess að óttast er …
Siglfirðingar mega sæta rýmingu í ljósi þess að óttast er að varnargarðar muni ekki halda ef mjög stór snjóflóð falla. mbl.is/Sigurður Ægisson

„Við höfum verið í sambandi við fólk á sveitabæjum til að fá upplýsingar um snjólög. Þetta eru nokkrir bæir sem alltaf er fylgst með þegar snjóflóðahrina er í gangi,“ segir Harpa.

Á vef veðurstofunnar kemur fram að fimm snjóflóð hafa fallið undanfarna daga á Tröllaskaga. Öll utan byggðar. Einnig hafa tvö snjóflóð fallið í Hörgárdal og Ljósavatnsskarði. Eru þau öll flekaflóð að stærð 2-4 eftir eyðileggingarmætti. Stærst var það sem féll á skíðasvæðið á Siglufirði. Fyrsta flóðið sem vitað er um í þessari hrinu var stórt og féll yfir Ólafsfjarðarveg og út í sjó. Annað efnismikið flóð féll í næsta gili daginn eftir og náði einnig út í sjó. Þegar fyrra flóðið féll var vegurinn á óvissustigi vegna snjóflóðahættu. Veginum var lokað eftir að fyrra flóðið féll og var lokaður þar til á miðvikudagsmorgun. Hann var opinn tímabundið í gær en var svo lokað aftur.

Harpa Grímsdóttir.
Harpa Grímsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Reynslan af Flateyri ástæða rýmingar

Í frétt á vef Veðurstofunnar er vísað til snjóflóðs á Flateyri í janúar í fyrra í tengslum við snjóflóðahrinuna nú. Segir þar að ástæða rýmingar á Siglufirði sé vegna þess að hætt sé við því að varnargarðar muni ekki duga til ef mjög stór snjóflóð falla.

„Í janúar í fyrra féllu mjög stór snjóflóð á varnargarða ofan Flateyrar og fóru að hluta til yfir þá. Eftir það hefur verið unnið að endurskoðun á virkni leiðigarða á fleiri stöðum. Fyrstu niðurstöður fyrir Stóra-Bola undir Strengsgiljum gefa til kynna að ef mjög stór flóð falla á garðinn geti gefið yfir hann. Rýmingin nú er því varúðarráðstöfun sem tekur mið af bráðabirgðarýmingarkorti. Þess má geta að ávallt hefur verið gert ráð fyrir rýmingu undir varnargörðum við allra verstu aðstæður,“ segir í fréttinni.

mbl.is