„Dóttirin sat bara með skafl í fanginu“

Margrét Arna Arnardóttir og fjölskylda hennar voru á ferðinni yfir Öxnadalsheiði í gær þegar bíll þeirra varð fyrir snjóflóði. Stuttu áður hafði hún hringt í Vegagerðina og spurt hvort í lagi væri að halda upp á heiðina og verið sagt að aðeins væri um þæfingsfærð að ræða.

Fjölskyldan var á leið frá Reykjavík og lýsir Margrét því við mbl.is að aðstæður yfir Vatnsskarðið hafi verið hræðilegar. Þau hafi því ákveðið að hringja í Vegagerðina og athuga með aðstæður uppi á Öxnadalsheiði.

Svörin voru á þá leið að verið væri að ryðja veginn og að þar væri bara smá þæfingur. Þegar þau voru að nálgast toppinn á heiðinni komu þau að bílaröð, en eins og mbl.is hefur sagt frá myndaðist þar bílaröð vegna skafls á veginum.

„Skaflinn kemur alveg inn í bílinn“

Fremst var bíll sem var fastur í skaflinum og segir Margrét að þar sem þau hafi verið á Land Rover jeppabifreið búin kaðli og skóflu hafi þau farið fram fyrir og aðstoðað við að losa bílinn sem var fastur.

Í kjölfarið var farið að reyna að moka í gegnum skaflinn og var Land Roverinn notaður til að reyna að búa til leið þegar búið var að moka. Síðan var honum bakkað meðan mokað var á ný og aftur reynt. Þannig gekk það í nokkurn tíma þangað til snjóflóðið féll.

Til að koma bílunum í gegnum skaflinn þurfti að moka …
Til að koma bílunum í gegnum skaflinn þurfti að moka leiðina með skóflum og svo var reynt að þjappa hana á Land Rovernum. Ljósmynd/Margrét Arna

„Maðurinn minn var með opinn gluggann á bílnum og er að tala við þá sem eru úti að moka og svo allt í einu kemur þessi þögn og búmm, hvílíkur hvellur á bílnum og skaflinn kemur alveg inn í bílinn,“ segir Margrét. Fyrst hafi þau ekki vitað hvað gerðist, talið að um sterka vindkviðu hafi verið að ræða og einhver dottið utan í eða undir bílinn. Svo hafi hún litið í aftursætið og séð snjóinn sem hafði flætt inn í aftursætið. „Dóttirin sat bara með skafl í fanginu og svo heyrðum við „þetta var snjóflóð“.“

Þegar flóðið féll segir Margrét að þau hafi verið við það að komast í gegnum skaflinn á veginum, en flóðið hafi bætt talsverð við og rúmlega metra af snjó utan á jeppann. Meðal annars gat hún ekki opnað hurðina farþegamegin, jafnvel þótt flóðið hafi komið bílstjóramegin á jeppann.

Frá Öxnadalsheiði í gærkvöldi.
Frá Öxnadalsheiði í gærkvöldi. Ljósmynd/Margrét Arna

Ósátt með skilaboðin frá Vegagerðinni

Beint í kjölfarið var allt kapp lagt á að komast sem fyrst úr aðstæðum og sem betur fer gekk hratt að komast í gegnum restina af skaflinum og svo fylgdu aðrir bílar í kjölfarið. Aðstæður á öðrum stöðum á heiðinni voru að sögn Margrétar nokkuð í lagi. Það er, þar var nokkuð autt og greiðfært á veginum sjálfum, þótt mikill skafrenningur hafi verið með úrkomu og litlu skyggni.

Margrét segir að verst þyki henni í þessu öllu að hafa fengið þau skilaboð frá Vegagerðinni að halda upp á heiðina þar sem verið væri að ryðja á sama tíma og bílstjórar hafi verið að vara við umferð þangað upp og ruðningstækið hafi verið á leiðinni niður eftir sína síðustu ferð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert