Áfram mikil snjóflóðahætta á Vestfjörðum

Horft upp í hlíðina austan megin við Eskifjörð þar sem …
Horft upp í hlíðina austan megin við Eskifjörð þar sem vegurinn upp í Oddskarð liggur. Snjóflóð féll í Oddskarði á mánudag. Ljósmynd/Aðsend

Hættustig Veðurstofu Íslands vegna snjóflóðahættu á Vestfjörðum er nú á fjórða stigi, eða í flokknum „mikil hætta“. Óvissustigi vegna snjóflóðahættu á Austfjörðum og á Norðurlandi hefur verið aflétt. Enn er þó viðbúnaður við eitt hús á Hofsósi, neðan við stutta brekku þar sem djúp sprunga hefur myndast í snjóinn að því er fram kemur á vef Veðurstofunnar.

Töluverður snjór hefur bæst við á Vestfjörðum í NA-snjókomu og éljum síðustu viku. Skafið hefur í brekkur og gil með suðlægum viðhorfum og óstöðugir vindflekar myndast. Viðvarandi veikleikar eru í snjóþekjunni eftir langavarandi NA-átt og eru vindflekar mjög óstöðugir. Óstöðugleiki helst áfram í þekjunni eftir að veður gengur yfir á miðvikudag.

Mörg snjóflóð hafa fallið á svæðinu. Mikill óstöðugleiki er í snjóþekjunni og fólk á ferð í fjalllendi geta sett af stað flóð," segir á vefsíðu Veðurstofunnar um hættuna á Vestfjörðum.

Grafið útskýrir hættuna á Vestfjörðum.
Grafið útskýrir hættuna á Vestfjörðum. Graf/Veðurstofan

Hættan liðin hjá á Austfjörðum

Snjóflóð féll í Harðskafa í Eskifirði aðfaranótt mánudags og flóð féll í Hólmgerðarfjalli við Oddskarð á mánudag þegar sól fór að skína á fjallið. Síðan þá hafa engin stór snjóflóð fallið. Veðrið fyrir austan hefur gengið niður og spáin gerir ráð fyrir hægum vindi og lítilli úrkomu næstu daga. 

„Flóðin sem fallið hafa síðustu daga benda til þess að snjóalög séu óstöðug þótt ekki sé talin hætta í byggð. Þrátt fyrir að veðrið sé gengið niður ætti fólk á ferð í brattlendi eða undir bröttum hlíðum að sýna aðgát og forðast staði þar sem snjóflóð geta fallið,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Grafið útskýrir stöðuna á Austfjörðum eins og hún var áður …
Grafið útskýrir stöðuna á Austfjörðum eins og hún var áður en óvissustigi var aflétt. Graf/Veðurstofan

Mjög staðbundin hætta á Norðurlandi

„Óvissustigi vegna snjóflóðahættu á Norðurlandi hefur verið aflétt. Enn er þó viðbúnaður við eitt hús á Hofsósi, neðan við stutta brekku þar sem djúp sprunga hefur myndast í snjóinn. Hættan þar er mjög staðbundin, tengist einungis þessu eina húsi og er ekki lýsandi fyrir landshlutann í heild sinni,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Á Norðurlandi hefur veðrið gengið niður og spáin gerir ráð fyrir hægum vindi og lítilli úrkomu næstu daga. Ekki er vitað til þess að nein snjóflóð hafi fallið síðan á sunnudag en þá féll stórt flóð á Höfðaströnd í Skagafirði. Einnig hefur frést af fleiri stórum flóðum á Höfðaströnd, sem líklega féllu fyrr í veðrinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka