Brytja snjóhengjuna niður með vinnuvélum

„Það var sett vinna í gang upp úr hádeginu í dag að fá stórvirkar vinnuvélar, snjótroðara og fleira til að brytja hana niður þannig að hún skapi ekki lengur hættu á svæðinu,“ segir Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn á Norðurlandi vestra, í samtali við mbl.is.

Mjög stór snjóhengja er fyrir ofan hús Vesturfarasetursins á Hofsósi og óttast er að hún falli þar niður.

Óvissustigi vegna snjóflóðahættu var aflétt allsstaðar á Norðurlandi í dag nema á Hofsósi þar sem lögreglan á Norðurlandi vestra, í samráði við ofanflóðavakt Veðurstofu Íslands, ákvað að loka hafnarsvæðinu vegna snjóflóðahættu.

Það er allt á kafi í snjó á Hofsósi.
Það er allt á kafi í snjó á Hofsósi. Ljósmynd/Ingvar Gýgjar Sigurðsson

Sprungan vísbending um að snjórinn sé að skríða niður

Stór sprunga hefur myndast í snjóhengjuna sem liggur í hlíðinni fyrir ofan húsnæði Vesturfarasetursins. Sprungan er talin vera um 50 metrar á lengd og að hún geti verið milli fimm og sex metrar á dýpt þar sem hún er dýpst. Sprungan er talin vera vísbending um að snjórinn sé að skríða niður brekkuna.

„Það var mat bæði snjóflóðaeftirlitsmannanna og okkar að það yrði að taka hana, annars færi hún og það væri ekki hægt að taka áhættuna á því hvað myndi gerast þá. Það eru tæki og mannskapur að klóra þetta niður, ég held það gangi þokkalega,“ bætir Stefán við.

Gröfur, snjótroðarar og önnur tæki eru notuð til að brytja …
Gröfur, snjótroðarar og önnur tæki eru notuð til að brytja hengjuna niður. Ljósmynd/Ingvar Gýgjar Sigurðsson
Horft ofan í sprunguna.
Horft ofan í sprunguna. Ljósmynd/Lögreglan
mbl.is