Hafa áhyggjur af svæðinu

Stór sprunga hefur myndast í snjóalög ofan við húsnæði Vesturfarasetursins.
Stór sprunga hefur myndast í snjóalög ofan við húsnæði Vesturfarasetursins. Facebook-síða lögreglunnar á Norðurlandi vestra

„Við höfum verulegar áhyggjur af svæði þarna fyrir ofan Vesturfarasetrið,“ segir Stefán Vagn Stef­áns­son, yf­ir­lög­regluþjónn á Norður­landi vestra, við mbl.is. Lögreglan hefur ákveðið í sam­ráði við of­an­flóðavakt Veður­stofu Íslands að loka hafn­ar­svæðinu á Hofsósi vegna snjóflóðahættu.

Mynd­ast hef­ur stór sprunga í snjóa­lög ofan við hús­næði Vest­urfara­set­urs­ins en Stefán segir að sprungan sé hátt í 50 metra löng og talið sé að hún geti verið á milli fimm og sex metrar á dýpt þar sem hún er dýpst.

Lok­un­in nær yfir hafn­ar­svæðið frá göngu­brú yfir Hofsá við Frænd­g­arð og yfir að Nöf­um og er öll um­ferð um svæðið strang­lega bönnuð þar til annað verður ákveðið.

Kvosin, sem hýsis Vesturfarasetrið, var nánast á kafi í snjó …
Kvosin, sem hýsis Vesturfarasetrið, var nánast á kafi í snjó í desember 2019. Ljósmynd/Aðsend

„Við höfum áhyggjur af því að þessi hengja sé að fara og þegar hún gerir það fer mikill massi á hreyfingu. Við tókum því þá ákvörðun í nótt að loka svæðinu,“ segir Stefán. 

Aðspurður svarar hann því játandi að svæðið verði lokað þar til snjóflóð fellur eða staðan metin þannig að hætta á því sé ekki lengur til staðar.

„Næstu dagar fara í að átta sig á því hvað eða hvort eitthvað sé hægt að gera til að svæðið verði öruggara. Þangað til verður það lokað,“ segir Stefán sem bendir enn fremur á að ekki þurfi að rýma íbúðahús í þorpinu vegna snjóflóðahættunnar.

Vesturfarasetrið á kafi í snjó í desember 2019.
Vesturfarasetrið á kafi í snjó í desember 2019. mbl.is/Daði Jóhannsson
mbl.is