Engar skemmdir orðið á brúnni

Staðan verður metin í birtingu.
Staðan verður metin í birtingu. Ljósmynd/Lögreglan

Ekki er búið að opna fyrir umferð um þjóðveg 1 á milli Mývatns og Egilsstaða vegna krapastíflu sem hefur flætt yfir veginn við brúna yfir Jökulsá á Fjöllum.

Hreiðar Hreiðarsson, aðalvarðstjóri lögreglunnar á Húsavík, telur að fulltrúar Vegagerðarinnar séu komnir á staðinn. Vilja þeir fylgjast með stöðu mála þegar birtir til. Vegna þess hve lítið rennsli var í ánni við brúna í gær er mögulegt að safnast hafi saman krapi ofar sem gæti brostið.

Að sögn Hreiðars hafa engar skemmdir orðið á brúnni og ekki er vitað til þess að vegurinn sé skemmdur. Búið er að stinga í gegnum krapann að mestu leyti en ekki er talið þorandi að láta bíla vera þarna eftirlitslausa ef krapinn færi af stað.

Viðgerð við að laga streng Mílu á milli Reykjahlíðar og Hjarðarhaga, sem slitnaði í gær, stendur yfir. Líklega þarf að moka meira ofan af honum til að komast í hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert