Utanríkismálanefnd fór yfir stöðuna í Bandaríkjunum

Frá fundi utanríkismálanefndar Alþingis fyrr á kjörtímabilinu.
Frá fundi utanríkismálanefndar Alþingis fyrr á kjörtímabilinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Utanríkismálanefnd Alþingis fundaði á föstudaginn um stöðuna í Bandaríkjunum samkvæmt dagskrá nefndarfunda. Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og nefndarmaður í utanríkismálanefnd, segir fundinn hafa verið gagnlegan og yfirferðina góða.

„Við funduðum með sendiherranum okkar og starfsmönnum sendiráðsins í Washington, sem og fulltrúum utanríkisráðuneytisins. Það voru auðvitað bara vangaveltur um hvað þau eru komin mikið inn í þessi stjórnarskipti,“ segir Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og nefndarmaður í utanríkismálanefnd. 

Hún segir fundinn ekki síst hafa snúist um árherslur nýrrar ríkisstjórnar eins og starfsmenn utanríkisþjónustunnar meta þær og samband þeirra við annað utanríkisstarfsfólk og embættismenn.

Bryndís segir sérstaklega áhugavert að heyra um breyttar áherslur í norðurslóðamálum og loftslagsmálum, enda Bryndís í þingmannanefnd um norðurslóðamál. 

Hún segir áherslu fundarins hafa verið stjórnarskiptin og framtíðina í samskiptum ríkjanna en ekki endilega óeirðirnar í Washington í janúar – „enda lítið við þá umræðu að bæta,“ sagði Bryndís.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert