Verkfall stöðvar ekki innflutning bóluefnis

Bóluefni Pfizer er væntanlegt til landsins með flugi Bláfugls.
Bóluefni Pfizer er væntanlegt til landsins með flugi Bláfugls. Ljósmynd/Gunnar Flóvenz

Aflýsa hefur þurft að minnsta kosti einu fraktflugi Bláfugls vegna verkfalls flugmanna FÍA hjá Bláfugli (Bluebird Nordic) sem hófst á miðnætti í dag. Til stóð að flytja bóluefni frá Pfizer til landsins með fraktflugvél Bláfugls og samkvæmt upplýsingum mbl.is gekk það eftir þrátt fyrir seinkun.

Júlía Rós Atladóttir, framkvæmdastjóri Distica, var í sambandi við forsvarsmenn Bláfugls í gær og fékk þær upplýsingar að áætlunarflugin með bóluefnin væru í forgangi.

„Ég var í samskiptum við þau í gær og það átti ekki að stoppa bóluefnavélarnar. Þær áttu að vera í forgangi en það var einhvern seinkun en ég held að það hafi verið út af tollamálum,“ segir Júlía Rós í samtali við mbl.is.

Um er að ræða hefðbundið vikulegt magn, um 2-3 þúsund skammtar.

Bóluefni AstraZeneca komi vonandi á næstu dögum

Þá segist Júlía vera bíða eftir því að fá dagsetningu á fyrstu sendingu af bóluefni AstraZeneca og vonar hún að það muni berast til landsins á næstu dögum. Það bóluefni er mun einfaldara að flytja það á milli staða enda þarf ekki að geyma það í frysti heldur er það geymt eins og hefðbundið kælivörulyf, við 2-8 gráður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert