„Sjúkrahúsdvölin er auðveldari þegar þú ert svo heppinn að eiga bestu mömmu í heimi.“
Guðmundur Felix Grétarsson, sem liggur þessa dagana á sjúkrahúsi í Frakklandi eftir handleggjaágræðslu, fékk sérstaklega ánægjulega máltíð í dag, til tilbreytingar frá spítalamatnum: Heimagerða kjötsúpu úr eldhúsi móður hans og í eftirrétt íslenska skúffuköku sem skolað var niður með mjólk.
Eftir fjórar vikur af tilbreytingarlausum mat sem bragðaðist eins og pappír var þessi matseðill dagsins kærkominn, segir Guðmundur Felix í facebookfærslu um málið.
Tæpur mánuður er frá því að handleggir voru græddir á Guðmund Felix og fylgjast læknar enn náið með framvindunni. Sagt var frá því á dögunum að handleggirnir nýju væru að hafna nýja eigandanum en slík tilhneiging er eðlileg og ekki áhyggjuefni.