Leit haldið áfram á K2

Skjáskot af Facebook-síðu Mims

Leit verður haldið áfram á K2 í dag að John Snorra Sigurjónssyni, Ali Sadpara og Juan Pablo Mohr Prieto en ekkert hefur spurst til þeirra síðan snemma á föstudagsmorgun.

Uppfært klukkan 8

Sjerpinn Chhang Dawa greinir frá því á Twitter að hann hafi tekið þátt í leitinni í morgun og flogið með þyrlu pakistanska hersins í rúmlega sjö þúsund metra hæð í morgun án árangurs. Nú er verið að bíða eftir því að veðurskilyrði batni svo hægt sé að halda leit áfram. 

 


 

Fjallgöngumaðurinn þekkti Alan Arnette hefur eftir Sajid, syni Ali, sem var með þeim í för en sneri við í búðir 3 snemma á föstudagsmorgninum, að hann og faðir hans hafi verið að klifra án aðstoðar súrefnis en hefðu verið með auka súrefni með í farangrinum til öryggis. Þegar hann ætlaði að grípa til súrefnisins hafi það aftur á móti ekki virkað. Áður hefur komið fram að Juan Pablo Mohr Prieto var án auka súrefnis en hann er ekki hluti af leiðangri Johns Snorra og feðganna Ali og Sajid heldur fékk hann að vera þeim samferða síðasta hluta leiðarinnar á tind K2. 

Alan Arnette hefur eftir Sajid að þegar hann yfirgaf þremenningana hafi þeir verið sambandslausir, það er hvorki talstöðvar né gervihnattasímar þeirra virkuðu. Sajid telur að þremenningarnir hafi náð á tind K2 en sennilega lent í vandræðum á leiðinni niður Bottleneck. Hann viti það aftur á móti ekki, ekkert frekar en aðrir. 

Vefur Alan Arnette en þar er að finna þýðingu á því sem kom fram í máli Sajid á fundi með fjölmiðlum í gær.

Karrar Haideri, hjá Alpaklúbbi Pakistans, segir í samtali við Guardian að enn hafi ekkert spurst til þeirra en að Sadpara, sem er Pakistani, sé gríðarlega reynslumikill fjallgöngumaður sem hafi klifið átta hæstu fjöll heims.

Explorers Web

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert