Ráðuneytið skoðar kosti sameiningar

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur ákveðið að hefja forkönnun á fýsileika þess að flytja fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS).

Ráðgjafarfyrirtækið Intellecta hefur verið fengið til liðs við ráðuneytið við gerð könnunarinnar, að því er kemur fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is.

Fram kom á mbl.is í gær að Samband íslenskra sveitarfélaga hefur óskað eftir því að samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og félagsmálaráðuneytið kanni sem fyrst kosti þess að sameina fasteignaskrá og HMS.

Faglegur og fjárhagslegur ávinningur greindur

Í forkönnun Intellecta og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins verður greint hvort faglegur og fjárhagslegur ávinningur geti falist í því að færa verkefni á grundvelli laga um skráningu og mat fasteigna til HMS.

Kannað verður hvort hægt verði að auka hagnýtingu stafrænnar tækni við áframhaldandi þróun fasteignaskrár og húsnæðisgrunns til hagbóta fyrir opinbera aðila, almenning og fyrirtæki.

Þjóðskrá Íslands er til húsa í Borgartúni.
Þjóðskrá Íslands er til húsa í Borgartúni. Ljósmynd/Aðsend

Starfsemin treyst á Akureyri?

Sömuleiðis verður greint hvort tækifæri gætu falist í slíkri breytingu til að treysta starfsemina sem er nú fyrir hendi á Akureyri á vegum Þjóðskrár Íslands og eftir atvikum nýta tækifæri til að auglýsa störf án staðsetningar, samanber markmið ríkisstjórnar þar að lútandi.

Einnig verður kannað hver yrði fjárhagsleg sjálfbærni og rekstrargrundvöllur þeirrar starfsemi sem yrði eftir hjá Þjóðskrá Íslands í kjölfar slíkra breytinga og eftir atvikum koma með ábendingar um frekari breytingar á þeirri starfsemi sem gætu falið í sér skilvirkni og einföldun skipulags.

Verkefnisáætlun gerir ráð fyrir að niðurstaða liggi fyrir í lok mars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert