Rýma hús á Seyðisfirði — hættustigi lýst yfir

Frá Seyðisfirði eftir að stórar aurskriður féllu þar í lok …
Frá Seyðisfirði eftir að stórar aurskriður féllu þar í lok síðasta árs. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir hættustigi á Seyðisfirði vegna hættu á skriðuföllum. Þetta er gert í samráði við lögreglustjórann á Austurlandi og Veðurstofu Íslands. Ákveðið hefur verið að rýma öll hús við Botnahlíð, tólf hús við Austurveg, þrjú hús við Fossgötu, sjö hús við Hafnargötu, eitt hús við Múlaveg og eitt hús við Baugsveg fyrir klukkan sjö í kvöld.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og lögreglustjóranum á Austurlandi.

Í kvöld og nótt, þriðjudaginn 16. febrúar, er ákafri úrkomu á Austfjörðum í austan- eða norðaustanátt, spáð, meðal annars á Seyðisfirði. Spáin gerir ráð fyrir að uppsöfnuð úrkoma á Seyðisfirði geti jafnvel orðið yfir 60 millimetrar sem leggst við 70 millimetra úrkomu og leysingar frá því á laugardag. Þá er reiknað með því að byrji að rigna upp úr hádegi en mestri ákefð er spáð frá klukkan sex í kvöld og til miðnættis. Hitastig er núna yfir frostmarki í fjallahæð og talsverð leysing hefur verið síðan um helgina.

Hér má sjá bráðabirgðarýmingarkort frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og lögreglustjóranum á …
Hér má sjá bráðabirgðarýmingarkort frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og lögreglustjóranum á Austurlandi.

Óvissa um stöðugleika hlíðanna í Botnabrún

„Þessi rýming er í varúðarskyni þar sem óvissa er um stöðugleika hlíðanna í Botnabrún eftir skriðuföllin í desember 2020 og hvernig jarðlög bregðast við ákafri úrkomu. Rýmt er til að byrja með við minni rigningu og/eða leysingu en áður, þar til meiri reynsla fæst á stöðugleika hlíðarinnar. Þessi reynsla fæst með því að fylgjast með því hvernig jarðlög bregðast við úrkomu í kjölfar skriðuhrinunnar í desember og einnig er verið að byggja upp reynslu á túlkun gagna úr nýjum mælitækjum,“ segir í fyrrnefndri tilkynningu.

„Staða rýmingar verður endurmetin á morgun, en búist er við hægt kólnandi veðri á miðvikudag og á fimmtudag verður aftur komið frost til fjalla.“

Þá verður fjöldahjálparstöðin í Herðubreið opin eins og þörf þykir. Þjónustumiðstöð almannavarna verður áfram opin í Herðubreið á Seyðisfirði en einnig er hægt að senda inn fyrirspurnir á netfangið sey@logreglan.is og hringja í 839-9931 utan afgreiðslutíma.

Fréttin hefur verið uppfærð

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert