Jákvætt að sjá skýr skilaboð frá Biden

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er jákvætt að sjá þessi skýru skilaboð frá Biden-stjórninni um styrkingu Atlantshafstenglanna og að standa eigi vörð um okkar sameiginlegu gildi.“

Þetta segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra en hann fundaði í gær og í dag með Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra Nato, og varnarmálaráðherrum allra aðildarríkja. Fundurinn var sá fyrsti síðan Joe Biden tók við embætti forseta og nýskipaður varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Lloyd Austin, sat fundinn.

Guðlaugur segir að góðar umræður hafi verið á fundinum um lykilmál sem varða sameiginlega öryggishagsmuni ríkjanna. Stríðsreksturinn í Afganistan og verkefni bandalagsins í Írak voru til umræðu á fundinum og ákveðið að fjölga í sveitum NATO í Írak úr 500 manns í um 4.000. Þá var engin ákvörðun tekin um að draga herlið úr Afganistan.

Á fundinum kynnti Stoltenberg drög að tillögum um nýja áætlun bandalagsins til framtíðar, sem nefnist Nato 2030. Undir það falla hugmyndir um að skipta byrðum milli ríkj­a bandalagsins jafnar, þannig að kostnaður vegna verkefna verði í auknum mæli fjármagnaður með sameiginlegum sjóðum bandalagsins í stað þess að hvert ríki standi straum af eigin aðgerðum.

„Það er gömul saga og ný að menn hafa kallað eftir aukinni þátttöku annarra en Bandaríkjanna þegar kemur að framlögum til bandalagsins og þróunin hefur verið á þá vegu,“ segir Guðlaugur.

85% hækkun á fjórum árum

Útgjöld til varnarmála eru að meðaltlali um 1,55% af landsframleiðslu í ríkjum NATO án Bandaríkjanna, en í Bandaríkjunum er hlutfallið 3,42% samkvæmt skýrslu bandalagsins frá árinu 2019 en Ísland er ekki meðtalið í þeirri tölfræði. Samkvæmt samþykktum NATO skulu öll ríki stefna að því að verja 2% af landsframleiðslu í varnarmál fyrir árið 2024, að Íslandi undanskildu.

Samkvæmt fjárlögum ársins 2021 er 2,87 milljörðum króna varið í liðinn samtarf um öryggis- og varnarmál, en var 1,55 milljarðar króna þegar ríkisstjórnin tók við árið 2017.

Frá æfingu hersveita Nato á Reykjanesi árið 2019. Framlög Íslands …
Frá æfingu hersveita Nato á Reykjanesi árið 2019. Framlög Íslands til öryggis- og varnarmála hafa aukist um 85% að nafnvirði í tíð ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. mbl.is/Árni Sæberg

 „Við höfum jafnt og þétt verið að hækka framlag okkar sem tengjast þessu samstarfi og höfum aldrei verið virkari þátttakendur í Atlantshafsbandalaginu heldur en núna,“ segir Guðlaugur og nefnir einnig að farið hafi verið í stórvirkari endurnýjun og viðhald á varnarmannvirkjum á Íslandi en gert hafi verið í áratugi. Þá taki Ísland nú í fyrsta skipti þátt í netöryggissamstarfi, sem kynnt verður nánar á næstunni.

„Það eru algjörlega okkar hagsmunir að taka þátt í þessu öflugasta varnarbandalagi heims. Þeim fjármunum er mjög vel varið og þess vegna hef ég í minni tíð sem utanríkisráðherra lagt áherslu á það að auka framlögin til þessa málaflokks,“ segir Guðlaugur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert