NATO-ríki sem taka ekki þátt greiði meira

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO. AFP

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, segir Bandaríkin borga of mikið fyrir verkefni bandalagsins. Hann vill skipta byrðum jafnar milli ríkjanna. Breytingarnar gætu þýtt að ríki, sem ekki taka þátt í verkefnum, þurfi að greiða meira.

Samkvæmt samkomulagi NATO-ríkja stendur Ísland undir 0,0645% af beinum fjárframlögum til bandalagsins. Er það tæpum 70% meira miðað við höfðatölu en meðalríki, enda þjóðarframleiðsla ríkja tekin með í reikninginn.

Stærstur hluti útgjalda á vettvangi NATO er þó ekki fjármagnaður með beinu framlögunum heldur óbeint, þ.e. ríkin standa sjálf straum af kostnaði við aðgerðir sínar svo sem stríðsrekstrinum í Afganistan. Þessu vill Stoltenberg breyta.

„Að nýta meiri pening saman væri til marks um skuldbindingar okkar í samræmi við fimmtu greinina [í stofnsáttmála NATO], loforðið um að vernda hver annan. Það yrði líka til þess að dreifing kostnaðar yrði sanngjarnari.“

Þessar tillögur verða helsta áherslumál Stoltenbergs á leiðtogafundi sambandsins, sem fram fer síðar í ár og eru hluti af framtíðarsýninni Nato 2030.

Staða Íslands óljós

Í ljósi þess að Ísland er herlaust land og tekur með takmörkuðum hætti þátt í ýmsum verkefnum NATO mætti ætla að þessi breyting geti aukið kostnað Íslands, eigi þessar reglur að gilda um landið. Það er þó alls óvíst, en í tölfræði NATO um útgjöld til „varnarmála“ er Ísland oft undanskilið sökum þess að hér er enginn her.

Þá hefur Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sagt að viðmið NATO um að ríki verji 2% af landsframleiðslu til varnarmála, eigi ekki við á Íslandi.

Varnarmálaráðherrar NATO-ríkjanna, þeirra á meðal Guðlaugur Þór, munu hittast á fjarfundi á miðvikudag og fimmtudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert