„Ég átti sko bara að hringja í ykkur“

Alþingi. Forseti Íslands flytur ávarp.
Alþingi. Forseti Íslands flytur ávarp. mbl.is/Hari

Ákvæði um hlutverk forseta Íslands í frumvarpi forsætisráðherra um breytingar á stjórnarskránni kollvarpar ekki embætti forseta en endurspeglar ekki fyllilega gildandi rétt og skilur eftir sig spurningar. Þetta kom fram í erindi Elínar Óskar Helgadóttur, aðjúnkts við lagadeild Háskólans í Reykjavík, á málþingi í HR um lögfræðileg álitaefni um frumvarpið sl. miðvikudag.

Elín velti því m.a. upp hvort breytingarnar feli í sér efnislegar breytingar á hlutverki forsetans, einkum þegar um þingrof er að ræða. Í frumvarpinu hefur einum málslið verið bætt við ákvæði stjórnarskrárinnar um þingrof þar sem segir: Áður en forseti tekur afstöðu til tillögu forsætisráðherra um þingrof skal hann leita álits forseta Alþingis og formanna þingflokka sem sæti eiga á Alþingi .

Elín sagði þetta vekja ýmsar spurningar. „Hvað á forseti að gera í kjölfar þessara álitsumleitana, hefur hann efnislegt vald til þess að synja forsætisráðherra um þingrof og þarf forseti yfir höfuð að verja hagsmuni þingsins gagnvart forsætisráðherra?“ sagði hún.

Rifjaði hún upp þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra, gekk á fund Ólafs Ragnars Grímssonar, þáverandi forseta, árið 2016 „og með í för var skjalataska. Það er deilt um það hvort var óskað formlega eftir þingrofi en það er alla vega ljóst að forsetinn þáverandi taldi sér unnt að synja um þingrof,“ sagði hún. Í kjölfarið hafi margir talið yfirlýsingar forseta stangast á við venjur en ekki reyndi á valdheimildir forsetans með beinum hætti.

Benti hún einnig á að fram kæmi í frumvarpinu það sjónarmið að forsetinn verður ekki þvingaður til þess að gera neitt. „Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að samkvæmt gildandi reglum getur forseti ekki tekið ákvörðun um þingrof nema með atbeina ráðherra, sem ber ábyrgð á þeirri ákvörðun. Síðan er vísað í viðeigandi ákvæði stjórnarskrár og svo segir: , Með sama hætti fer ekki á milli mála að ráðherra getur ekki þvingað forseta til að samþykkja tillögu um þingrof. Felur frumvarpið ekki í sér breytingu að þessu leyti .

„Hvað þýðir þetta?“ spurði Elín. „Grundvallarvandinn er að ráðherra ber ábyrgð og því ætti forseti ekki að taka efnislega afstöðu en að sama skapi er undirskrift hans nauðsynleg en hann verður ekki þvingaður til þess að veita hana. Er ekki verið að gera þá kröfu að forsetinn meti efnislega hvort þingrof sé skynsamlegt hverju sinni? Ef samráð forseta við þingflokka leiðir í ljós að ekki sé samhugur um þingrof getur forseti þá bara synjað? Varla segir hann: Ókei, ég átti sko bara að hringja í ykkur en auðvitað hef ég ekkert vald,“ sagði hún.

Að mati Elínar verður stjórnskipunin líklega áfram óljós varðandi raunverulegt hlutverk forseta eða a.m.k. enn þá í þróun. Menn geti haft mismunandi skoðanir á því hvort forseti þurfi yfirhöfuð að verja hagsmuni þingsins gagnvart forsætisráðherranum eins og nýja þingrofsákvæðið geri ráð fyrr en það þurfi að vera ljóst hvert hlutverkið á að vera og ríkja um það sæmileg sátt.

Nánari umfjöllun er í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert