Af sama þjóðerni og aðrir sem sitja inni

Rauðagerði.
Rauðagerði. mbl.is

Maðurinn sem færður var í gæsluvarðhald í dag í tengslum við rannsóknina á morðinu í Rauðagerði er af sama þjóðerni og einhver þeirra sem nú þegar sitja í gæsluvarðhaldi. Níu manns sitja nú í gæsluvarðhaldi vegna málsins og eru þeir ýmist frá Íslandi, Albaníu, Litháen, Portúgal, Spáni, Eistlandi eða Rúmeníu.

Ekki fékkst staðfest frá Margeiri Sveinssyni yfirlögregluþjóni hverrar þjóðar maðurinn væri nákvæmlega sem færður var í varðhald í dag. Margeir ræddi við mbl.is nú á áttunda tímanum. 

Spurður hvort annar maður, sem handtekinn var í gær, hefði verið látinn laus úr haldi lögreglu sagði Margeir að ekki hefði verið farið fram á gæsluvarðhaldsúrskurð yfir þeim manni. Af því má ráða að manninum verði sleppt ef það hefur ekki nú þegar verið gert. 

Margeir sagði einnig að hann gæti ekki tjáð sig neitt um hvort morðvopn hefði fundist í málinu enn, en Arm­ando Beqirai, Albani búsettur á Íslandi, fannst látinn á heimili sínu um miðnætti milli föstudags og laugardags í síðustu viku og fundust skotsár á líki hans. Armando skilur eftir sig ófríska konu og ungt barn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert