Voru ekki og verða ekki beittir sektum

Víðir segir að enn séu ekki komnar fram stífar reglur …
Víðir segir að enn séu ekki komnar fram stífar reglur um brottvísun og því ekki útlit fyrir að neinum verði vísað úr landi vegna skorts á vottorði á næstu dögum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þeir 58 sem hafa komið hingað til lands án vottorðs sem sýnir fram á neikvæða niðurstöðu úr PCR-prófi vegna Covid-19 síðan reglugerð um slíkt tók gildi sl. föstudag hafa ekki og verða ekki beittir sektum, að sögn Víðis Reynissonar, yfirlögregluþjóns hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Þá hefur engum verið vísað úr landi vegna þessa.

Víðir segir að engum sektum verði beitt fram á miðvikudag, fólkinu sé einfaldlega gert að sæta tvöfaldri skimun með nokkurra daga sóttkví á milli við komuna til landsins. Hið sama gildir um þau sem skila vottorði við komuna til landsins.

„Það er ekki fyrr en búið er að birta formlega þessar reglur ríkissaksóknara og leiðbeiningar um sektir að við megum byrja að beita þeim. Við eigum von á [reglunum og leiðbeiningunum] um miðja viku,“ segir Víðir í samtali við mbl.is. Lögreglunni er ekki heimilt að beita sektunum afturvirkt.

Sér ekki fram á brottvísanir á næstu dögum

Allir þeir 58 sem ekki framvísuðu vottorði eru búsettir hérlendis eða starfa hérlendis. Í nýjum sóttvarnalögum er heimild fyrir því að vísa fólki sem er ekki búsett hérlendis, t.d. erlendum ferðamönnum, úr landi ef þeir uppfylla ekki þær kröfur sem eru settar fram um komuna til landsins.

Víðir segir að enn séu ekki komnar fram stífar reglur um brottvísun og því ekki útlit fyrir að neinum verði vísað úr landi vegna skorts á vottorði á næstu dögum.

„Ekki nema aðstæður séu mjög augljóslega þannig að fólk uppfylli ekki ákveðin skilyrði, eins og til dæmis [skilyrði um] ferðalög frá Schengen-löndunum og annað slíkt.“

Frá skimun fyrir Covid-19. Farþegar sem hingað koma þurfa að …
Frá skimun fyrir Covid-19. Farþegar sem hingað koma þurfa að fara í tvöfalda skimun með sóttkví á milli auk þess að framvísa neikvæðri niðurstöðu úr PCR-prófi við komuna til landsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nú er aðlögunartíminn liðinn

Spurður hvernig fólk hafi útskýrt fjarveru vottorða sinna segir Víðir að fólk hafi almennt borið fyrir sig skort á tíma.

„Langflestir höfðu reynt og komist í sýnatökuna en ekki fengið niðurstöðurnar áður en þeir lögðu af stað til landsins,“ segir Víðir sem bendir á að nú ættu „allir“ að vera meðvitaðir um nýju reglurnar á landamærunum.

„Nú vita allir þetta sem koma hingað, allir fá skilaboð frá sínu flugfélagi um að þetta sé skylda. Nú er aðlögunartíminn liðinn og við bíðum bara eftir því að fá þessar heimildir til þess að fylgja þessu strangar eftir,“ segir Víðir.

Hann telur að fólk ætti að geta uppfyllt skilyrðin sem sett eru fyrir komunni til landsins og að auðveldara sé fyrir fólk að verða sér úti um PCR-próf en teymi almannavarna taldi áður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert