Hætta á bresti hjá AstraZeneca

Bóluefni AstraZeneca er unnið í samstarfi við Oxford-háskóla.
Bóluefni AstraZeneca er unnið í samstarfi við Oxford-háskóla. AFP

Óttast er að afhending geti tafist á öðrum ársfjórðungi á Covid-bóluefni bresk-sænska fyrirtækisins AstraZeneca, samkvæmt nýjustu fréttum frá Deutsche Presse-Agenteur, dpa.

Til stóð að Evrópusambandsríki fengju 180 milljónir skammta á ársfjórðungnum en nú gæti farið svo að þeir verði ekki nema 90 milljónir.

Talsmaður ESB segir við dpa að vonast sé til þess að lokaniðurstaðan verði hagstæðari. Viðræður um afhendingaráætlun standa enn yfir.

Íslendingar eiga von á alls 115.000 þúsund skömmtum frá AstraZeneca en afhendingaráætlun liggur ekki fyrir um alla skammtana. Tæp 3.000 hafa þegar fengið fyrstu sprautuna og áfram er verið að bólusetja heilbrigðisstarfsmenn og starfsmenn hjúkrunarheimila með efninu á næstu vikum.

Ef rétt reynist að ESB fái færri skammta af bóluefninu á öðrum ársfjórðungi en áætlað var, er hætta á að í hlutfalli við þá skerðingu fækki skömmtunum sem berast til Íslands.

Skemmst er frá því að segja að í lok janúar tilkynnti AstraZeneca að í stað 80 milljón skammta á fyrsta ársfjórðungi yrði aðeins unnt að afhenda 30 milljónir. Loks urðu skammtarnir fjörutíu milljónir fyrir lok mars.

Hér má sjá frétt Handelsblatt og Bild um bóluefnaskammtana.

mbl.is