Hafa samið um bóluefni fyrir 754.000 manns

Frá bólusetningu gegn Covid-19 í Laugardalshöll.
Frá bólusetningu gegn Covid-19 í Laugardalshöll. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslensk stjórnvöld hafa samið við bóluefnaframleiðendur um bóluefni gegn Covid-19 fyrir 754.000 manns. Skammtarnir duga því til að bólusetja um 2,7 sinnum fleiri en heilbrigðisyfirvöld ætla að bjóða bólusetningu hér á landi. 

Heilbrigðisráðherra segir að stjórnvöld muni gefa alla skammta sem verða afgangs en ætlunin er að bjóða um 280.000 manns bólusetningu hér á landi, þ.e.a.s. öllum þeim sem eru fæddir fyrir árið 2006. 

Nú þegar hafa tæplega 16.000 manns hafið eða lokið bólusetningu hér á landi. 

Pfizer og Johnson & Johnson bjóða flesta skammta

Flestir bóluefnaskammtar koma frá lyfjafyrirtækinu Pfizer, eða um 500.000 talsins. Þeir duga fyrir 250.000 manns þar sem hver og einn þarf tvo skammta af Pfizer til þess að fá fulla bólusetningu. Áður hafði verið samið um 250.000 skammta frá Pfizer, sem duga fyrir 125.000 manns, en Evrópusambandið tvöfaldaði samninginn við Pfizer í byrjun árs og hafði það áhrif á samning Íslands við lyfjaframleiðandann. 

Samið hefur verið við Johnson & Johnson um 235.000 skammta fyrir jafnmarga en einungis einn skammtur af bóluefninu nægir fyrir fulla bólusetningu. Bóluefnið hefur ekki fengið skilyrt markaðsleyfi frá Lyfjastofnun Evrópu en það er í umsóknarferli hjá stofnuninni og er útlit fyrir að hún muni gefa út sitt álit í marsmánuði. Bóluefnið kemur hingað til lands á öðrum ársfjórðungi ef allt gengur upp. 

Skammtafjöldi frá Sanofi enn óljós

Þá fá Íslendingar skammta fyrir 64.000 manns frá Moderna, 115.000 frá AstraZeneca og 90.000 frá CureVac. Enn er óákveðið hversu marga skammta Íslendingar fá frá Sanofi en samningur við fyrirtækið hefur ekki verið undirritaður. Þá er bóluefnið ekki komið í fasa þrjú prófanir. Hið sama má segja um bóluefni CureVac en samt sem áður hafa íslensk stjórnvöld skrifað undir samning upp á 90.000 skammta frá fyrirtækinu.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Alveg klárt“ að afgangsskammtar verða gefnir öðrum

„Staðan er bara þannig að við verðum að halda áfram að kaupa enn um sinn vegna þess að við vitum ekki nákvæmlega um virkni efnanna frá einstökum framleiðendum,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra um skammtana sem Íslendingar fá. 

„Þetta á allt saman eftir að koma í ljós með auknum rannsóknum og rannsóknum þá líka á því hvernig þau virka á einstök afbrigði og svo framvegis. Hins vegar er það alveg klárt að allt sem er umfram munum við gefa til þeirra sem eru í vanda með bólusetningu, það liggur algjörlega fyrir.“

Eins og áður hefur komið fram í fréttum hafa velmegandi ríki heims sankað að sér bóluefnaskömmtum á meðan fátækari lönd sitja eftir í baráttunni um bóluefnin. Velmegandi ríki heimsins sjá þannig fram á að fá millj­arði fleiri skammta af bólu­efni gegn Covid-19 en þau þurfa.

mbl.is