Iðkendum má fjölga í World Class

Björn Leifsson, eigandi World Class, tekur því sem að honum …
Björn Leifsson, eigandi World Class, tekur því sem að honum er rétt. Haraldur Jónasson/Hari

Nokkrar breytingar verða á skipulagi æfinga í líkamsræktarstöðvum World Class í kjölfar tilslakana á sóttvarnaráðstöfunum sem taka gildi á morgun.

50 mega þá koma saman í stað 20.

Í stuttu máli verður sóttvarnahólfum fækkað í World Class, en um leið fjölgar í þeim hólfum sem þó eru til staðar.

Í stað tveggja 20 manna hólfa í stöðvum eins og World Class í Vatnsmýri verður þannig eitt 50 manna hólf. Það eru þá alla vega tíu sem bætast við, eins og Björn Leifsson, eigandi World Class, bendir á í samtali við mbl.is.

Á sama hátt verður hólfum í Laugum fækkað um helming og verða tvö í stað fjögurra.

Áfram tímabókanir 

Björn segir að þessi leið verði farin vegna þess að sú leið að fjölga í hólfunum en ekki fækka þeim á móti hefði falið í sér of mikið flækjustig. Þessar ráðstafanir eiga að gilda í þrjár vikur en áfram er líkamsræktarstöðvum skylt að styðjast við bókaða hóptíma, þó að ekkert í æfingunni sjálfri eigi skylt við eiginlegan hóptíma.

Aðspurður kveðst Björn hvorki hafa gert sér vonir um meiri eða minni tilslakanir: „Við tökum því sem að okkur er rétt.“

mbl.is