Ótti við COVID-19 minnkar

Ótti við að smitast af COVID-19 hefur ekki mælst minni …
Ótti við að smitast af COVID-19 hefur ekki mælst minni síðan í júní í fyrra. AFP

Ótti við að smitast af COVID-19 minnkar enn og hefur ekki mælst jafn lítill síðan í júní í fyrra samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallup en könnun Gallup fór fram á dögunum 12. til 21. febrúar 2021. 

Markmiðið með þjóðarpúlsinum var að kanna viðhorf til ýmissa þátta sem tengjast COVID-19 faraldrinum ásamt hegðun og þróun yfir tíma. 

17,8% þátttakenda sögðust mjög lítið óttast smit en í síðustu mælingu voru það 12,0%. Þeir sem sögðust mjög mikið óttast smit fóru þá úr 24,2% niður í 15,5% milli mælinga. 

Á sama tíma hafa áhyggjur af efnahagslegum og heilsufarslegum áhrifum faraldursins minnkað. Efnahagslegar áhyggjur hafa ekki verið minni síðan í júlí og áhyggjur af heilsufarslegum áhrifum hafa ekki verið jafn litlar síðan í september. Auk þess hefur kvíði fólks vegna COVID-19 minnkað og ekki verið minni síðan í september. 

Þeim fækkar sem þvo oftar hendur

Þá kemur fram í púlsinum a þeim hafi fækkað sem þvoi eða spritti oftar eða betur hendur sínar og noti grímu eða hanska í ákveðnum aðstæðum. 

Þeim hefur einnig fækkað sem forðast að eiga óþarfa samskipti við annað fólk, forðast fjölfarna staði og þeim sem forðast faðmlög og kossa. 

„Þó fólk sé eitthvað farið að slaka á varðandi faðmlög og kossa virðist sú hefð að heilsast með handabandi ekki hafa komið til baka að sama skapi. Annað sem hefur ekki breyst er að fólk verslar enn frekar á netinu, en það gæti þó mögulega núna verið vegna þæginda frekar en í sóttvarnarskyni og spurning hvort sú hegðun sé að einhverju leyti komin til að vera,“ segir í tilkynningu frá Gallup. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert