Hjólreiðafólk ósammála túlkun lögreglu

Atvikið umdeilda sést á þessari mynd, þar sem hjólreiðafólk hjólar …
Atvikið umdeilda sést á þessari mynd, þar sem hjólreiðafólk hjólar á miðri akrein. Erlendur S. Þorsteinsson telur hjólreiðafólkið vera í ríkjandi stöðu og aðstæður leyfi því hjólreiðar á miðri rein. Ljósmynd/Lögreglan

„Mér finnst að lögreglan og Samgöngustofa ættu endilega að taka smá spjall um þennan facebookpóst og stilla saman strengi sína,“ segir Erlendur S. Þorsteinsson, reiknifræðingur og stjórnarmaður í Landssamtökum hjólreiðamanna. 

Margt hjólreiðafólk hefur gert athugasemdir við færslu sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu birti á facebooksíðu sinni í dag, þar sem fyrirspurn er svarað á þá leið að ekki sé heimilt að hjóla á miðri götu þar sem hámarkshraði er yfir 30 km/klst.

Samgöngustofa tekur undir með lögreglu

Með færslunni birtir lögregla mynd af hjólreiðafólki sem hjólar á miðri akrein. Erlendi finnst framsetning lögreglunnar ekki rétt – hann telur að 1. mgr. 42. gr. umferðarlaga, þar sem segir að hjólreiðafólk skuli að jafnaði halda sig hægra megin þar sem hámarkshraði er yfir 50 km/klst, setji ekki fortakslaust bann við hjólreiðum á miðri akrein í aðstæðum sem sjást á myndinni.

Aðstæður gefi hjólreiðamönnunum tilefni til þess að hjóla á miðri rein, öryggis síns vegna, m.a. vegna þrenginga á götunni og óbrotinnar línu.

Í 1. mgr. 42. gr. umferðarlaga segir: Hjólreiðamaður skal að jafnaði hjóla í akstursstefnu á hjólastíg eða hjólarein eða hægra megin á akrein þeirri sem lengst er til hægri á akbraut sem er ætluð almennri umferð.

Þetta og fleira er tekið saman í grein sem er rituð á vefinn hjolafrettir.is, undir heitinu „Staðreyndir í stóra löggumálinu“.

Ný lög kveði á um að hjóla skuli hægra megin

Blaðamaður leitaði svara hjá umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Samgöngustofu, sem virðast sammála um túlkun ákvæðisins; lögð er rík áhersla á að 1. mgr. 42. gr. skuli túlkuð samkvæmt orðanna hljóðan, þ.e. að hjólreiðafólk skuli að jafnaði halda sig hægra megin á akrein þar sem hámarkshraðinn er yfir 50 km/klst. 

Guðbrandur Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn umferðardeildar, segir að lögreglan sé í Facebook-færslunni einungis að lýsa gildandi rétti, og að orðalagið „að jafnaði“ skuli túlka á þá leið að langoftast beri hjólreiðamönnum að fylgja lagaákvæðinu.

Þórhildur Elínardóttir, samskiptastjóri Samgöngustofu, hafði þetta um málið að segja, eftir að hafa ráðfært sig við kollega sína:

„Það er erfitt að draga víðtækar ályktanir af aðstæðum út frá einni ljósmynd en þó er hægt að taka undir að umferðarlögin gera ráð fyrir því að hjólreiðafólk eigi almennt að halda sig hægra megin á þeirri akrein sem er lengst til hægri,“ segir hún og bætir við að Samgöngustofa gangi út frá því að færsla lögreglunnar hafi verið í því skyni að upplýsa fólk um gildandi umferðarlög.

Við þetta bætir hún: 

„Einnig segja lögin að hjólreiðafólk megi hjóla á miðri akrein ef hámarkshraði er ekki meiri en 30 km á klukkustund en jafnframt er gott fyrir ökumenn að muna þá reglu að sé ekið fram úr reiðhjóli skal hliðarbil að lágmarki vera 1,5 metrar.

Samgöngustofa leggur fyrst og fremst mikla áherslu á gagnkvæma tillitsemi og umburðarlyndi í umferðinni og að hegðun sé í samræmi við aðstæður,“ segir hún í skriflegu svari til mbl.is.

mbl.is