Símon Sigvaldason skipaður dómari við Landsrétt

Símon Sigvaldason.
Símon Sigvaldason. Ljósmynd/Aðsend

Dómsmálaráðherra hefur ákveðið að gera tillögu til forseta Íslands um skipun Símonar Sigvaldasonar, dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur, í embætti dómara við Landsrétt frá 1. mars 2021.

Símon lauk embættisprófi frá lagadeild Háskóla Íslands árið 1989 og hefur jafnframt lagt stund á nám við lagadeild Kaupmannahafnarháskóla og Penn State háskóla í Bandaríkjunum. Fram til ársins 1998, er Símon var skipaður skrifstofustjóri Hæstaréttar Íslands, starfaði hann m.a. sem aðstoðarmaður dómara við Hæstarétt Íslands og sem skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneytinu, að því er segir á vef Stjórnarráðsins.

Símon sinnti starfi skrifstofustjóra Hæstaréttar allt til ársins 2004 er hann var skipaður dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur en því embætti hefur hann gegnt síðan, þar af sem dómstjóri frá árinu 2017. Að auki hefur Símon sinnt fræðastörfum og kennslu við lagadeild Háskóla Íslands. Af öðrum störfum Símonar má nefna formennsku í dómstólaráði 2006-2017, setu í refsiréttarnefnd frá árinu 2007 auk þess sem hann hefur margoft tekið sæti sem varadómari í Hæstarétti Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert