Vatnsleki og skemmdir eftir skjálfta

Landspítalinn við Hringbraut.
Landspítalinn við Hringbraut. mbl.is/Ómar Óskarsson

Minni háttar skemmdir hafa komið í ljós á nokkrum stöðum í byggingum Landspítala, aðallega minni sprungumyndanir í veggjum, eftir jarðskjálftana á Reykjanesskaga fyrr í vikunni.

Auk þess kom vatnsleki upp á einum stað og loftaplötur losnuðu. Ekkert rof varð á virkni grunnkerfa spítalans og ekkert alvarlegt tjón varð á byggingum.

Fólk að störfum á Landpítalanum.
Fólk að störfum á Landpítalanum. Ljósmynd/Landspítali/Þorkell

Mat á tjóni liggur ekki fyrir

„Starfsmenn fasteignaþjónustu og öryggisdeildar hafa gengið um og kannað stöðu húsnæðis og tæknikerfa. Auk þess hafa starfsmenn deilda verið hvattir til að láta vita ef þeir verða varir við skemmdir á húsnæðinu eftir skjálftana,“ segir í svari Birnu Helgadóttur, forstöðumanns aðfanga og umhverfis á Landspítalanum, við fyrirspurn mbl.is.

„Verið er að yfirfara og meta ábendingar. Við munum bregðast við þeim, lagfæra og fyrirbyggja frekari skemmdir eins og hægt er. Nákvæmt mat á tjóni liggur því enn ekki fyrir,“ segir einnig í svarinu.

mbl.is